Sverrir og Júlíus efstir á Vetrarmóti öðlinga



Á meðan börnin og unglingarnir sitja að tafli á Heimsmeistaramóti ungmenna í Slóveníu eru það öllu reynslumeiri skákmenn sem taka þátt í Vetrarmóti öðlinga hjá Taflfélagi Reykjavíkur þessar vikurnar.  Góður tími er tekinn í mótið, sem telur sjö umferðir, og er teflt einu sinni í viku.  Síðastliðið miðvikudagskvöld fór fram þriðja umferð og að henni lokinni eru tveir keppendur með fullt hús.

 

Helstu úrslit urðu þau að Júlíus L. Friðjónsson sigraði Halldór Pálsson, Sverrir Örn Björnsson sigraði Gylfa Þórhallsson og þá heldur Kristinn Jón Sævaldsson áfram að koma á óvart en að þessu sinni gerði hann jafntefli við stigahæsta keppanda mótsins, Þorvarð F. Ólafsson, en Kristinn hefur ekki sést á skákmótum í áraraðir.

 

Sverrir og Júlíus eru því efstir og jafnir með þrjá vinninga og mætast í fjórðu umferð sem fer fram á miðvikudag og hefst kl. 19.30.  Næstir með 2,5 vinning koma Siguringi Sigurjónsson og Þór Valtýsson og mætast þeir einnig í fjórðu umferðinni en átta keppendur hafa 2 vinninga.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir 1. umf
  • Skákir 2. umf