Fjórir skákmenn eru efstir á og jafnir á Haustmótinu með fjóra vinninga eftir fimm umferðir; IM Einar Hjalti Jensson (2362), GM Hjörvar Steinn Grétarsson (2567), FM Oliver Aron Jóhannesson (2272) og Jóhann H. Ragnarsson (2032).
Ónefndur sterkur skákmaður sagði eitt sinn að betra væri að vera með hvítt í skák. Það kann að vera rétt, en það var þó ekki að sjá í 5.umferð Haustmótsins því svartur vann á efstu fjórum borðunum. Oliver Aron vann Magnús P. Örnólfsson (2227), Hjörvar Steinn lagði Björgvin Víglundsson (2137), Jóhann vann Þorvarð Fannar Ólafsson (2164) og Loftur Baldvinsson (1963) hafði betur gegn Ingvari Agli Vignissyni (1670). Einar Hjalti tók yfirsetu í umferðinni.
Soffía Berndsen (0) vann Adam Omarsson (1149) með hvítu og bendir margt til þess að Soffía næli sér í sín fyrstu skákstig í vetur, enda hefur hún verið einkar dugleg að sækja æfingar og tefla í mótum að undanförnu. Af öðrum ungum TR-ingum var það helst að frétta að Benedikt Þórisson (1065) var nærri sigri gegn Tryggva K. Þrastarsyni (1325) en varð að lokum að játa sig sigraðan. Skákin er harður skóli! Árni Ólafsson (1217) mætti mun stigahærri andstæðingi, Kristjáni Erni Elíassyni (1869), og hafði Kristján betur. Þá gerði Kristján Dagur Jónsson (1271) jafntefli gegn Sveini Sigurðarsyni (1252) í hörkuskák.
Haustmótið heldur áfram á sunnudag þegar 6.umferð verður tefld. Þá mætast tveir stigahæstu menn mótsins er stórmeistarinn Hjörvar Steinn stýrir hvítu mönnunum gegn alþjóðlega meistaranum Einari Hjalta. Á 2.borði mætast Oliver og Jóhann. Skákáhugamenn eru hvattir til þess að líta við í Faxafeninu og fylgjast með spennandi toppbaráttunni. Birnukaffi verður að sjálfsögðu opið fyrir keppendur og gesti.
Úrslit, staða og pörun #6 umferðar: Chess-results
Skákir HTR (pgn): #1, #2, #3, #4 (Skrá #3 umferðar inniheldur leiðréttar skákir #1 og #2 umferðar).