Stórmót Árbæjarsafns og TR haldið sunnudaginn 15. ágústStórmót Árbæjarsafns og Taflfélags Reykjavíkur fer fram sunnudaginn 15. ágúst. Mótið gefur einstakt tækifæri til að takast á við skákgyðjuna í sögulegu umhverfi á þessu fyrsta stóra skákmóti starfsársins 2021-2022.

Teflt verður í Árbæjarsafni og hefst taflið kl.14. Tefldar verða 7 umferðir með umhugsunartímanum 4 mínútur auk 2 sekúndna viðbótartíma eftir hvern leik (4+2). Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, 15.000 kr., 10.000 kr. og 5.000 kr. Mótið verður reiknað til alþjóðlegra hraðskákstiga.

Þátttökugjald er greitt með því að greiða aðgangseyri inn á safnið samkvæmt gjaldskrá Árbæjarsafns. Frítt er fyrir 67 ára og eldri, öryrkja og börn 17 ára og yngri. Þátttökugjaldið er greitt við inngang safnsins.

Núverandi Árbæjarsafnsmeistari er alþjóðlegi meistarinn Davíð Kjartansson, en hann hefur unnið mótið oftast allra, eða fjórum sinnum.

Óskað er eftir því að keppendur skrái sig í gegnum hefðbundið skráningarform. Skákstjóri verður Torfi Leósson.

Mótið er hluti af Sumarmótaröð Reykjavíkur 2021.

Stigaútreikningur í mótinu:

  1. Bucholz -1
  2. Bucholz
  3. Sonneborn-Berger
  4. Innbyrðis úrslit

Í sumarmótaröðinni er keppt um 200.000 króna verðlaunasjóð. Stigakeppni sumarmótaraðarinnar virkar þannig að stig eru veitt fyrir efstu 10. sætin. 1 stig fyrir 10. sæti, 2. stig fyrir 9. sæti og svo framvegis. Í 1. sæti í hverju móti verða hins vegar 12 stig veitt. Stigakeppnir  með sama sniði verða einnig notaðar til að reikna út aukaverðlaunin. Þrjú bestu mót hvers þáttakanda gilda. Hin mótin í sumarmótaröðinni eru Mjóddarmótið, Viðeyjarmótið og Borgarskákmótið.

Staða efstu manna í sumarmótaröðinni að Mjóddarmóti og Viðeyjarmóti loknu:

  1. Davíð Kjartansson 24 stig
  2. Arnar Gunnarsson 14 stig
  3. Vignir Vatnar Stefánsson 12 stig
  4. Ingvar Þór Jóhannesson 9 stig
  5. Jón Viktor Gunnarsson 8 stig
  6. Dagur Ragnarsson, Guðmundur Kjartansson og Tómas Björnsson 7 stig

 

Skráningarform 

Þegar skráðir keppendur