Stórmeistarinn sýnir klærnarÍ gærkvöldi fór fram spennuþrungin 6.umferð Skákþings Reykjavíkur og má öllum vera ljóst eftir að síðasta klukkan stöðvaðist að leikar eru heldur betur farnir að æsast. Forystusauðirnir töpuðu, hvítu mennirnir reyndust happadrjúgir á sjö af efstu átta borðunum, ungviðið lék við hvurn sinn fingur og mikið var um óvænt úrslit.

Stórmeistarinn, Stefán Kristjánsson (2492), sýndi mátt sinn og megin á 1.borði gegn Degi Arngrímssyni (2368) sem fyrir skákina var efstur í mótinu. Stefán virtist ekki fá áberandi færi eftir opnunina en Vesturbæingurinn er ólseigur og vélaði Dag niður líkt og stórmeistara er siður.

Á 2.borði stýrði Jón Viktor Gunnarsson (2433) svörtu mönnunum til sigurs gegn Degi Ragnarssyni (2059). Enginn vafi leikur á því að alþjóðlegi meistarinn er vel vistum búinn fyrir stríðsátök til lokadags og er næsta víst að hann lætur ekki Reykjavíkurkrúnuna af hendi mótspyrnulaust.

Ísfirðingurinn lífsglaði Guðmundur Gíslason (2315) lagði Þóri Benediktsson (1895) að velli á 3.borði. Búast má við að Vestfirðir séu að fara á límingunum nú þegar þeirra maður er kominn í hóp efstu manna.

Á 4.borði mættust tveir af Grafarvogsþríburunum. Oliver Aron Jóhannesson (2170) hafði hvítt gegn Jóni Trausta Harðarsyni (2067) og var loftið lævi blandið er þeir settust gegnt hvor öðrum og tókust í hendur. Þeir félagarnir buðu áhorfendum upp á skemmtilegt tafl þar sem nánast ógjörningur var að lesa úr svip þeirra hvor teldi sig standa til vinnings. Að endingu var það Oliver sem hafði betur eftir snörp átök og hefur piltur því skipað sér á bekk með efstu mönnum mótsins.

Á 5.borði var teflt til þrautar í skák þrunginni spennu. Pólitíkusinn Björn Þorfinnsson (2373) hafði hvítt gegn hraðskákvélinni Jóhanni Ingvasyni (2126) og framleiddu þeir nokkrar athygliverðar taflstöður sem héldu fjölmörgum áhorfendum í skáksal framundir miðnætti. Í miðtaflinu virtist Björn vera að sigla vinningi í hús er hann beitti kænskubragði með drottningu sína lymskulega staðsetta á a8 hvar hún sótti að varnarvirki svarts um leið og hún valdaði lykilreiti á taflborðinu. Jóhann er landsþekktur fyrir að kalla ekki allt ömmu sína og hóf hann að sprikla af áfergju líkt og nýfangaður laxfiskur á þurru landi. Laxveiðimenn margir hverjir vita sem er -af biturri reynslu- að laxinn er ekki veiddur fyrr en hann er kominn í pottinn. Vísbendingar eru uppi um að þessi vitneskja hafi farið framhjá Birni. Sætir það nokkurri furðu sé litið til vandaðrar og haldgóðrar menntunar sem Björn hlaut í Æfingaskólanum forðum daga. Svo virðist sem kraftmikið sprikl Jóhanns hafi valdið usla í heilahvelum Björns sem fataðist úrvinnslan og eftir sátu þeir félagar í endatafli þar sem Björn hafði peði meira. Var það mál manna á skákstað að líklega væri staðan jafntefli. Það er skemmst frá því að segja að Björn var á öndverðu meiði við spekinganna og gerði sér lítið fyrir og vann endataflið. Eru gárungarnir á einu máli um að Björninn sé að rumska.

Á 6.borði urðu nokkuð óvænt úrslit. Þar beitti Norðanmaðurinn Mikael Jóhann Karlsson (2077) hvítu mönnunum gegn öðlingnum Þorvarði Fannari Ólafssyni (2245) og vann einkar sterkan sigur þrátt fyrir seiga varnartilburði Þorvarðar. Á 7.borði urðu ekki síður óvænt úrslit er Dawid Kolka (1829) lagði alþjóðlega meistarann Sævar Bjarnason. Höfðu áhorfendur á orði að Dawid hefði teflt vandaða og góða skák.

Á 15.borði var tefld afar taugatrekkjandi skák á milli Lofts Baldvinssonar (1987) og Harðar Jónassonar (1541). Loftur lenti í hraustlegu tímahraki í erfiðri stöðu sem Hörður nýtti sér til hins ítrasta. Undir lokin valhoppaði drottning Harðar á milli fyrstu reitarraðar og annarrar reitarraðar með ítrekuðum skákum á kóng Lofts, allt þar til frúin var komin í návígi við kónginn. Þá kom hrókur Harðar til skjalanna og rak smiðshöggið á mjög sterkan og óvæntan sigur Harðar. Sé litið til stigamunar þá telst þetta stærsti sigur Harðar við taflborðið frá upphafi vega. En vei þeim sem þarf að kljást við Loft í næstu umferð Skákþingsins, enda er þar á ferð annálaður keppnismaður sem tvíeflist við mótlæti.

Á 19.borði lagði hinn stórefnilegi Róbert Luu (1358) til atlögu með svörtu gegn hinum spænska Estanislau Plantada Siurans (1521). Róbert hefur brýnt atgeir sinn hressilega fyrir þessa viðureign því hann gerði sér lítið fyrir og vann Spánverjann. Róbert leikur á alls oddi um þessar mundir, hvort sem er á æfingum eða í keppni, og verður spennandi að fylgjast með framgöngu hans á næstu mánuðum.

Af öðrum úrslitum ber að nefna iðnaðarsigur landsliðskonunnar vandvirku Hallgerðar Helgu Þorsteinsdóttur (1992) gegn Degi Kjartanssyni (1731) og sterkt jafntefli Alexanders Olivers Mai (1105) með svörtu gegn Héðni Briem (1464).

Eftir 6.umferð eru fjórir skákgarpar efstir og jafnir með 5 vinninga; Stefán Kristjánsson, Oliver Aron Jóhannesson, Guðmundur Gíslason og Jón Viktor Gunnarsson. Öllum má vera ljóst að í 7.umferðinni verður kostnaður yfirsjóna þungur baggi hvers skákmanns í toppbaráttunni. Því verður spennandi að fylgjast með því hvernig skákmenn á efstu borðum nálgast 7.umferðina. Fara þeir varlega í sakirnar og einblína á að tapa ekki viðureignum sínum? Eða hafa þeir dug og þor til þess að tefla stíft til sigurs?

Á sunnudaginn næstkomandi, klukkan 14 stundvíslega, verða klukkur ræstar í 7.umferð Skákþings Reykjavíkur. Taflfélag Reykjavíkur býður gesti velkomna í húsakynni sín til þess að fylgjast með æsilegri baráttu skákmanna við taflborðin. Einnig er hægt að gæða sér á rjúkandi kaffibolla og ljúffengu meðlæti ásamt því að taka nokkrar köflóttar frammi í stúderingasal. Allir velkomnir, nú sem endra nær!

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Myndir
  • Skákirnar
  • Skákþing Reykjavíkur 2014
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur