SÞR#8: Hjörvar Steinn efstur fyrir lokaumferðina



20190130_201405

Orrustur 8.umferðar Skákþings Reykjavíkur voru margar hverjar leiftrandi skemmtilegar. Í raun var atgangurinn á taflborðunum engu minni en í umferðinni á undan þó fjöldi jafntefla hafi verið fjórfalt fleiri. Toppbaráttan breyttist lítið að öðru leyti en að nokkrir keppendur hafa bæst í hóp þeirra sem eygja von um 3.sætið.

Topporrusta 8.umferðar fór fram á 1.borði. Hjörvar Steinn Grétarsson (2560) stýrði hvítu mönnunum gegn Guðmundi Kjartanssyni (2424). Guðmundur þurfti sigur til að standa betur að vígi fyrir lokaumferðina en Hjörvar gat leyft sér að fara gætilega því jafntefli myndi setja hann í kjörstöðu fyrir síðustu umferð. Enda fór það svo að Hjörvar Steinn fór sér að engu óðslega og gaf fá færi á sér. Guðmundur komst lítið áleiðis í skák sem virtist í jafnvægi allan tímann. Jafntefli var samið í 37.leik þegar allt stefndi í þráskák. Hjörvar Steinn stendur því vel að vígi fyrir lokaátökin næstkomandi sunnudag og er með hálfs vinnings forskot á Guðmund.

20190130_201322

Tveir kappar höfðu tækifæri á að ná Guðmundi að vinningum með því að leggja andstæðinga sína að velli. Hvorugum tókst það. Vignir Vatnar Stefánsson (2248) gerði jafntefli við gamla brýnið Björgvin Víglundsson (2092) og situr Vignir Vatnar í 3.sæti með 6 vinninga. Þorvarður Fannar Ólafsson (2199) og Lenka Ptacnikova (2187) tefldu athygliverða skák sem lyktaði með jafntefli. Fyrir vikið er Þorvarður jafn Vigni í 3.sæti með 6 vinninga.

Sigurbjörn Björnsson (2296) nýtti sér til fulls jafnteflisflóðið á efstu borðum með því að vinna Gauta Pál Jónsson (2070). Sigurbjörn náði því Vigni og Þorvarði að vinningum í 3.sæti. Staðan fyrir lokaumferðina (5 vinningar og meira):

20190131_131010

 

Lokumferð Skákþings Reykjavíkur fer fram næstkomandi sunnudag og verða klukkur settar í gang kl.13:00. Sem fyrr segir er Hjörvar Steinn í vænlegri stöðu og hefur það í höndum sér að tryggja sér sigur í mótinu. Geri hann það yrði það í þriðja sinn sem hann gegnir nafnbótinni Skákmeistari Reykjavíkur. Guðmundur þarf að treysta á hagstæð úrslit í skák Þorvarðar og Hjörvars til þess að komast í efsta sæti. Vignir, Sigurbjörn og Þorvarður berjast um verðlaunasæti.

Skákir fjögurra efstu borða verða sýndar í beinni útsendingu og verða það eftirfarandi viðureignir:

20190131_130849

 

 

Nánari upplýsingar um einstök úrslit og stöðu má finna á Chess-Results.