SÞR#7: Blásið í herlúðra; Titilhafar á toppnum



Síðastliðinn sunnudag var 7.umferð Skákþings Reykjavíkur tefld og mættu keppendur til leiks með alvæpni. Vopnaðir teoríum og taktík settust þrekmiklir hugsuðir við taflborðin og blésu strax í herlúðra. Ekkert var gefið eftir. Engin miskunn. Föngum var ekki hlíft. Það eina sem vantaði var stríðsmálningin.

Alls voru tefldar 29 skákir í 7.umferð og enduðu aðeins þrjár þeirra með jafntefli. Hróðugir sigurvegarar stóðu upp að loknu tafli á fjórtán efstu borðunum. Á því fimmtánda kom loks fyrsta jafnteflið. Gárungarnir kváðust ekki muna eftir öðru eins blóðbaði í skáksal í seinni tíð.

IMG_0053

Hjörvar Steinn Grétarsson (2560) tryggði stöðu sína á toppnum með því að stýra svörtu mönnunum til sigurs gegn Sigurbirni Björnssyni (2296). Hjörvar Steinn hefur 6,5 vinning og hefur hálfs vinnings forskot þegar tvær umferðir eru eftir. Guðmundur Kjartansson (2424) fylgir Hjörvari eins og skugginn eftir að hafa unnið spútník-keppanda mótsins til þessa, Stephan Briem (1987), í hörkuskák. Guðmundur hefur halað inn 6 vinninga í skákunum sjö. Á 3.borði snéri Vignir Vatnar Stefánsson (2248) á Davíð Kjartansson (2403) og hafði sigur. Vignir Vatnar er því í bullandi toppbaráttu með 5,5 vinning. Sama gildir um Þorvarð Fannar Ólafsson (2199) sem einnig hefur 5,5 vinning eftir að hafa lagt Björn Hólm Birkisson (2078) í spennandi skák.

Af óvæntum úrslitum er það helst að segja að Batel Goitom Haile (1549) hafði betur gegn Jóhanni Arnari Finnssyni (1761) með svörtu. Þá gerði Þór Valtýsson (1901) sér lítið fyrir og vann núverandi Skákmeistara Reykjavíkur, Stefán Bergsson (2172).

Staðan að lokinni 7.umferð – Með 4,5 vinning eða meira:

SÞR#7_stadan

8.umferð Skákþingsins fer fram miðvikudaginn 30.janúar og fara klukkur í gang klukkan 19:30. Fjögur efstu borðin verða í beinni útsendingu sem nálgast má á öllum helstu skákmiðlum, hvort sem er í tölvum eða símum (td. Chess24, Chessbomb, Chessbase og FollowChess). Eftirtaldar viðureignir verða í beinni útsendingu:

SÞR#8_beinar

Hjörvar Steinn hefur hvítt gegn Guðmundi í uppgjöri tveggja stigahæstu keppenda mótsins. Vinni Hjörvar skákina er hann með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina. Vinni Guðmundur eða ef skákin endar með jafntefli þá verður lokaumferðin án efa rafmögnuð því þá opnast tækifæri fyrir fleiri keppendur að blanda sér í baráttuna. Báðir hafa þeir Hjörvar og Guðmundur hampað titlinum eftirsótta áður; Hjörvar í tvígang árin 2009 og 2010 og Guðmundur einu sinni árið 2017. Skákáhugamenn eru hvattir til þess að gera sér ferð í Faxafenið og fylgjast með æsispennandi toppbaráttu á Skákþingi Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar um einstök úrslit og stöðu mótsins má nálgast á Chess-Results.