SÞR #9: Stefán Bergsson er Skákmeistari Reykjavíkur 2018



Spennustigið í skáksal Taflfélags Reykjavíkur var hátt er síðasta umferð Skákþings Reykjavíkur var tefld. Fyrir umferðina áttu fjórir skákmenn möguleika á efsta sæti en aðeins einn þeirra, Stefán Bergsson, átti þess kost að tróna einn á toppnum. Stefáni nægði jafntefli í lokaumferðinni gegn Degi Ragnarssyni til þess að tryggja sér sigur í mótinu en Dagur hefði náð Stefáni að vinningum með sigri. Á sama tíma mættust Hilmir Freyr Heimisson og Bragi Þorfinnsson og hefði annar hvor getað náð Degi og Stefáni að vinningum færi svo að Dagur myndi vinna Stefáni.

20180207_192852

Bragi Halldórsson sést hér bregða á leik við upphaf lokaumferðarinnar ásamt Gunnari Björnssyni forseta SÍ.

Stóra spurning lokaumferðarinnar var sú hvort Stefán stæðist pressuna sem fylgir því að nægja jafntefli í lokaumferð gegn mun stigahærri andstæðingi, hafandi í huga tapið í 8.umferð þar sem jafntefli nægði Stefáni líka. Til að gera langa sögu stutta þá stóðst Stefán pressuna með glæsibrag. Hann tefldi mjög vel gegn franskri vörn Dags, hann nýtti sér mistök sem Dagur gerði í miðtaflinu og vann að lokum skákina. Það var í þessari stöðu sem Stefán gerði út um skákina:

20180208_183902

Stefán lék 20.Rf6+! og eftir 20…Bxf6 21.exf6 Rb3 22.De3 Rxd4 23.Hxd4 Bc6 24.Hg4 gafst Dagur upp.

Þessi sigur tryggði Stefáni 8 vinninga í skákunum 9 og sat hann því einn á toppnum við leiðarlok, heilum vinningi á undan næsta manni. Stefán Bergsson er því Skákmeistari Reykjavíkur árið 2018. Sannarlega stórbrotin frammistaða hjá Stefáni sem var í upphafi móts aðeins 14.stigahæsti keppandinn.

IMG_9712

Stefán Bergsson er Skákmeistari Reykjavíkur 2018.

IM Bragi Þorfinnsson vann skák sína í lokaumferðinni gegn CM Hilmi Frey Heimissyni og lauk tafli með 7 vinninga. Það nægði Braga til að hreppa 2.sætið. Í humátt á eftir Braga komu IM Einar Hjalti Jensson og FM Sigurbjörn Björnsson með 6,5 vinning. Einar Hjalti hlaut 3.sætið eftir stigaútreikning.

Nánar verður fjallað um mótið á næstu dögum. Upplýsingar um einstök úrslit og lokastöðu, sem og skákir mótsins, má finna á Chess-Results.