SÞR 8.umferð: Guðmundur Kjartansson vann Björn Þorfinnsson og er efstur fyrir síðustu umferðSkakthingReykjavikurLogo17

Guðmundur Kjartansson hafði sigur í viðureign alþjóðameistaranna í gærkvöldi. Björn Þorfinnsson lék snemma biskup til f4 en sú byrjun er kennd við sjálfa Lundúnaborg. Hún þótti óvenjuleg og sakleysisleg fyrir nokkrum árum en það er nú allt breytt. Bæði er hún orðin reglulegur hluti af vopnabúri sterkustu skákmanna og svo var ekkert sakleysislegt við byrjanataflmennsku Björns; hann blés strax til sóknar á kóngsvæng og mátti hvorki vera að því að hróka né nýta sér þjónustu hróks og riddara á drottningarvæng. Það var einmitt þar sem Guðmundur braust í gegn fyrst en svo beindi hann fljótt sjónum að heimakærum kóngi Björns og hafði sigur. Það táknar að Guðmundur er einn efstur með 7 vinninga fyrir síðustu umferð. Á eftir honum koma Lenka Ptacnikova sem hafði betur gegn Björgvini Víglundssyni og Dagur Ragnarsson sem lagði Þorvarð Fannar eftir að sá síðarnefndi hafði misstigið sig aðeins, snemma tafls. Þau tvö eru ½ vinningi á eftir Guðmundi.

20170201_205825

Toppslagur. Björn Þorfinnsson og Guðmundur Kjartansson áttust við í 8.umferð Skákþingsins.

 

Þó nokkrir eru að standa sig vel á mótinu og bæta töluverðu í, miðað við áætlaðan styrkleika skv. stigum. Þar má t.d. nefna Norðmanninn knáa Jon Olav Fivelstad, Hilmar Þorsteinsson og Óskar Long Einarsson.

Fyrir lokaumferðina er Guðmundur Kjartansson sá eini sem hefur málin að öllu leyti í eigin höndum, ef litið er til möguleika á fyrsta sætinu; aðrir þurfa að treysta á hagstæð úrslit í öðrum viðureignum. Guðmundur mætir Benedikti Jónassyni sem vann sína þriðju skák í röð gegn Jon Olav Fivelstad. Björn Þorfinnsson hefur hvítt gegn Degi Ragnarssyni og Lenka hvítt gegn Daða Ómarssyni. Guðmundur, Lenka, Dagur, Björn og Benedikt eiga öll möguleika á fyrsta sætinu.

Hingað til hefur verið teflt á sunnudögum og miðvikudögum en lokaumferðin fer fram á morgun, föstudaginn 3. febrúar og hefst kl. 19:30.

Önnur úrslit 8. umferðar og nánar um pörun má sjá á Chess-results.