SÞR 6.umferð: Dagur Ragnarsson leiðirSkakthingReykjavikurLogo17

Sviptivindar voru á toppnum í 6. umferð Skáþingsins í gærkvöldi. Dagur Ragnarsson vann peð gegn Gauta Páli Jónssyni á fyrsta borði og sigldi vinningi örugglega í höfn. Félagi Dags á toppnum fyrir umferðina, Lenka Ptacnikova, tapaði hins vegar fyrir Birni Þorfinnssyni sem var mættur ferskur til leiks eftir frí í síðustu umferðunum. Jóhann Ingvason vann tvö peð eftir flækjur gegn Guðmundi Gíslasyni, gaf síðan annað þeirra til baka til að komast í vænlegt hróksendatafl og vann að lokum.

Þá var lífleg skák þeirra Daða Ómarssonar og Arnar Leós Jóhannssonar. Hinn yfirleitt dagfarsprúði (á skákborðinu og utan þess) Örn Leó fórnaði rými og reitum í hinni nútímalegu Nútímavörn og bætti svo skiptamun við fórnarkostnaðinn fyrir sterkan hvítreita biskup og nokkurt spil gegn hvítu kóngsstöðunni. Daði átti góða en nokkuð vandfundna leið til að tryggja stöðuna sem hann kom því miður auga á 1 – 2 leikjum of seint. Hann varð því að gefa skiptamuninn til baka og niðurstaðan varð tvísýnt drottningarendatafl sem lauk að lokum með jafntefli.

IMG_9052

Benedikt Jónasson með svörtu sýndi hvernig má nota góðan riddara gegn aðþrengdum biskup í Maroczy/Dreka endatafli gegn Atla Antonssyni. Þeir félagar Petrosian og Pétursson hefðu mátt vera ánægðir með þá úrvinnslu. Ásamt Benedikt voru aðrir sem gera sig líka líklega til að kljást á efstu borðum með góðum sigrum í umferðinni. Þar má t.d. nefna Þorvarð Fannar, Birkissyni (Bárð Örn og Björn), sem og Jon Olav Fivelstad.

IMG_9056

Dagur Ragnarsson er nú einn efstur með 5 ½ vinning en skammt undan eru Björn Þorfinnsson og Guðmundur Kjartansson með 5. Dagur og Guðmundur mætast einmitt í 7. umferð á sunnudaginn n.k. en Björn etur kappi við Örn Leó. Lenka sem er nú í fjórða sæti, hefur hvítt gegn Daða Ómarssyni.

Önnur úrslit 6. umferðar má sjá á Chess-Results.