SÞR #6: Stefán Bergsson óstöðvandiIMG_9712

Fær ekkert stöðvað þennan?

Við upphaf sjöttu umferðar þurfti að taka upp sögubækurnar og fletta aftur á síðustu öld til að finna skákmann með 6 vinninga eftir 6 umferðir í Skákþingi Reykjavíkur. Þess þarf ekki lengur því þeim áfanga náði hinn grjótharði Stefán Bergsson (2093) síðdegis á sunnudag þegar hann landaði sigri gegn Hrafni Loftssyni (2163). Sú staðreynd að Stefán hafi fullt hús vinninga þegar þrjár umferðir lifa af móti er í senn stórmerkileg en umfram allt stórglæsileg. Gárungarnir velta fyrir sér hverskonar kraftur sé kominn yfir kappann en einhverjir hafa fleygt því fram að þeim finnist sem Stefán hafi allur eflst við hetjusögur af sérsveitarmönnum. Hvað sem því líður þá er ljóst að hann er í lykilstöðu fyrir síðasta þriðjung mótsins enda með 1,5 vinnings forskot.

IMG_9710

Stefán sér þó ekki alveg strax til hafnar því fimm vígreifir skákmenn koma næstir með 4,5 vinning, hver og einn fær um að mjaka sér á hinn kalda en eftirsótta topp. Þetta eru þeir Hilmir Freyr Heimisson (2136), Björn Hólm Birkisson (2084), Bragi Halldórsson (2082), Júlíus Friðjónsson (2137) og Sigurbjörn Björnsson (2288). Níu keppendur fylgja með 4 vinninga en athygli vekur að stigahæstu keppendur mótsins eru ekki í efstu sætunum…enn sem komið er.

Stefán stýrði svörtu mönnunum gegn Hrafni og var Kóngs-indversk vörn framreidd. Staðan var í nokkru jafnvægi framan af en í 16. leik svarts dró til tíðinda

pos1

Stefán getur hér fengið betri stöðu með því að leika Bxe4 en þegar glittir í möguleika á fórn stekkur hann vanalega á tækifærið. Því lék hann Rxh2 og hvítur þarf að vanda sig í vörninni. Eftir 24. leik svarts kom eftirfarandi staða upp

Pos2

Hrafn hefur varist vel og staðið af sér áhlaupið en verður hér á í messunni og leikur Kg1. De2 var nauðsynlegur því eftir textaleikinn kemur He8 og svarta staðan verður mjög vænleg vegna mikils áhlaups á kóng hvíts og svo fór að hvítur var mátaður nokkrum leikjum síðar. Skemmtileg skák sem sýnir hve taktískur Kóngs-Indverjinn getur verið.

Á öðru borði gerðu Björn Hólm og Hilmir Freyr meinlaust jafntefli og á því þriðja lagði Júlíus Gauta Pál Jónsson (2161). Nokkuð hefur dregið úr óvæntum úrslitum en þó gerðu Jón Úlfljótsson (1687) og Vignir Vatnar Stefánsson (2304) jafntefli og þá sigraði Örn Alexandersson (1366) Arnar Heiðarsson (1592).

Veigarnar í Birnu-kaffi eru margrómaðar.

Veigarnar í Birnu-kaffi eru margrómaðar.

Það er ljóst að síðasti þriðjungur mótsins verður æsispennandi og spurningin sem brennur mest á skákheimi er þessi: Nær einhver að stöðva Stefán Bergsson? Það verður Fide-meistarinn Sigurbjörn Björnsson sem situr fyrst fyrir svörum þegar hann stýrir svörtu mönnunum gegn þeim fyrrnefnda í sjöundu umferð sem fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld. Á næstu borðum mætast Júlíus og Björn, sem og Bragi og Hilmir.

Það er eins gott að Birnu-vöfflurnar verði orkumiklar og Birnu-kaffið koffeinríkt til að viðstaddir höndli spennuna sem mun ríkja í Skákhöllinni en flautað verður til leiks á slaginu 19.30. Áhorfendur eru sem fyrr velkomnir. Stöðuna, einstök úrslit ásamt skákum mótsins er að finna á Chess-Results.