Skákþing Reykjavíkur hófst 5. janúar og lauk 3. febrúar 2017 og var nú haldið í 86. sinn. Þátttakendur voru 56 að þessu sinni en Skákþingið hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem eitt stærsta opna innanlandsmótið í einstaklingskeppni á Íslandi. Þá virðist sá háttur sem hefur verið hafður á síðustu ár, þ.e. að tefla tvisvar í viku og hafa umferðir níu með möguleika á tveimur yfirsetum („bye“), henta mörgum afar vel.
Sigurvegari mótsins og þar með Skákmeistari Reykjavíkur 2017 varð Guðmundur Kjartansson, eftir spennandi baráttu fram í síðustu umferð. Guðmundur tefldi við flesta þá sem voru við efstu sætin og varð vinnningi fyrir ofan næsta mann þegar reikningar voru gerðir upp að lokum. Eina bakslagið var tap fyrir Lenku Ptacnikovu í 3. umferð en Lenka, sem endaði í þriðja sæti, var stigahástökkvarinn í hópi hinna efstu og bætti við sig tæpum 40 stigum. Hún tefldi enda í toppnum ásamt Degi Ragnarssyni allan tímann, þó töp gegn Birni Þorfinnssyni í 6. umferð og Guðmundi Gíslasyni í þeirri síðustu gerðu vonir um sjálfan titilinn að engu að þessu sinni.
Björn Þorfinnsson nýtti sér yfirsetur í fjórðu og fimmtu umferð en kom eins og stormsveipur að þeim loknum. Í sannkallaðri úrslitaskák í 8. umferð teygði hann sig hins vegar fulllangt gegn sigurvegara mótsins og tapaði. Með góðum sigri á Degi Ragnarssyni í síðustu umferð, tryggði hann sér hins vegar annað sætið. Þá eru ótaldir þrír sem voru, ásamt Lenku, með 6 ½ vinning. Áður var minnst á Dag Ragnarsson sem var efstur í mótinu með 4 ½ eftir fimm umferðir en töp gegn þeim efstu settu strik í reikninginn. Þeir Daði Ómarsson og Guðmundur Gíslason misstu báðir vinninga frekar snemma (í þriðju og fimmtu umferð) en komu fílefldir til baka og urðu jafnir þeim Lenku og Degi að vinningum en lægri á stigum. Báðir enduðu nokkurn veginn á pari miðað við stig en Guðmundur átti góðan endasprett; vann þrjár síðustu og þar á meðal Lenku, eins og áður kom fram. Síðan bætti Guðmundur um betur og vann 11 skákir til viðbótar en það voru reyndar hraðskákir á Hraðskákmóti Reykjavíkur sem hann vann með fullu húsi, tveimur dögum eftir lok Skákþingsins sjálfs.
Rétt er að nefna fleiri stigahástökkvara og ber þar líkast fyrstan að telja Hilmar Þorsteinsson (1840) sem var skráður 22. í stigaröðinni en náði 12. sæti, þrátt fyrir tap gegn Daða Ómarssyni í síðustu umferð og fékk fyrir vikið rúm 32 stig í plús. Ennfremur má nefna norðanmanninn, skákmótahaldarann og veiðimanninn Óskar Long Einarsson sem bætti við sig rúmum 20 stigum.
Sveiflur eru þó jafnan enn meiri í hópi yngri skákmannanna; þeir Briem-bræður, Benedikt og Stephan bæta t.d. á sig á bilinu 40 og 20 stigum; Stephan minna enda hærri fyrir en hann tefldi við sterka skákmenn eins og Björgvin Víglundsson, Daða Ómarsson og Þorvarð Ólafsson. Og þá er ótalið eftirtektarvert varnar- og seiglujafntefli gegn Júlíusi Friðjónssyni í 8. umferð. Fleiri bættu verulega við sig en þó enginn eins og Guðmundur: +83,2, takk fyrir.
Stigaverðlaun eru jafnan veitt og í ljósi þess sem kemur fram hér að ofan þurfa þau ekki öll að koma óvart: Fyrir bestan árangur skákmanna undir 2000 stigum fékk Hilmar Þorsteinsson verðlaun en Óskar Long Einarsson fyrir bestan árangur skákmanna undir 1800 stigum. Bókaverðlaun fyrir bestan árangur fengu einnig: Héðinn Briem (U1600), Sindri Snær Kristófersson (U1400) og Benedikt Þórisson (U1200). Ennfremur fengu verðlaun fyrir bestan árangur í aldursflokkum: Aron Þór Mai (f. 2001-2003), Benedikt Briem (2004-2007) og Bjartur Þórisson (f. 2008 og síðar). Loks fékk Guðmundur sérstök „performance“ verðlaun en hann tefldi við andstæðinga sem voru að meðaltali 380 stigum hærri en hann en lét það ekki oft stöðva sig, eins og áður kom fram.
Stjórn TR óskar Guðmundi Kjartanssyni til hamingju með titilinn Skákmeistari Reykjavíkur 2017 og öllum öðrum verðlaunahöfum með frammistöðuna. Ennfremur færum við öllum þátttakendum þakkir fyrir drengilega keppni og fyrir að gera Skákþing Reykjavíkur 2017 að vel heppnuðu og skemmtilegu móti!
Öll úrslit og lokastöðu mótsins má nálgast á Chess-Results.