Vel skipað Öðlingamót hófst síðastliðið miðvikudagskvöld en mótið er hið fjölmennasta síðan 2011. Alls eru þátttakendur 36 talsins og skipar enginn annar en Fide-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson (2377) toppsætið í stigaröð keppenda. Næst Ingvari kemur skákdrottningin og stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2210), og þá koma fjórir skákmenn sem allir hafa meira en 2100 Elo-stig, þeirra stigahæstur Þorvarður Fannar Ólafsson (2188). Þess má til gamans geta að Þorvarður, eða Varði eins og menn þekkja hann, hefur tekið þátt í öllum Öðlingamótunum síðan hann varð gjaldgengur í þau fyrir fimm árum.
Alls verða tefldar sjö umferðir og er mótið að þessu sinni aukinheldur Íslandsmót skákmanna 50 ára og eldri. Því tengdu er vert að nefna að hinn þaulreyndi Gunnar K. Gunnarsson (2115) er á meðal þátttakenda. Gunnar, sem hefur Íslandsmeistaratitil í farteskinu, er á 84. aldursári og mun vafalítið gera harða atlögu að fyrrnefndum titli 50 ára og eldri. Gunnar er ekki eini keppandinn sem er á níræðisaldri því kollegi hans, Guðmundur Aronsson (1639), er fæddur á því herrans ári 1936. Það er virkilega ánægjulegt að sjá þessa höfðingja á meðal þátttakenda og enn og aftur kemur í ljós að skáklistina er hægt að stunda langt frameftir aldri.
Í fyrstu umferð sem fór fram téð miðvikudagskvöld litu strax dagsins (kvöldsins?) ljós athyglisverð úrslit. Á efsta borði gerði Kristján Halldórsson (1909) sér lítið fyrir og landaði jafntefli gegn Lenku og þá lagði Kjartan Ingvarsson (1817) Hrafn Loftsson (2166) með svörtu mönnunum. Óskar Long Einarsson (1671) byrjaði sömuleiðis vel með sigri á Haraldi Baldurssyni (1983) en öðrum viðureignum lauk með sigri þess stigahærri.
Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst klukkan 19.30. Þá mætast á efstu borðum Ingi Tandri Traustason (1926) og Þorvarður, Björgvin Víglundsson (2185) og Kristinn Jón Sævaldsson (1934), sem og Gunnar og Sverrir Unnarsson (1925). Áhorfendur eru kvattir til að mæta – ávallt heitt á könnunni. Úrslit, myndir og skákirnar úr mótinu má finna í tenglum hér að neðan en það er Daði Ómarsson sem sér um innslátt skáka.
- Chess-Results
- Skákirnar (pgn): 1