Skákgoðsögn Íslands, Friðrik Ólafsson er látinn



Taflfélag Reykjavíkur syrgir nú einn sinn allra dýrkaðsta félaga og skákgoðsögn Íslands.. Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands og ein af hetjum islenska lýðveldisins og íslenskrar skáksögu, lést föstudaginn 4. apríl, níræður að aldri.

Friðrik tengdist Taflfélagi Reykjavíkur nánum böndum alla tíð. Hjá Taflfélagi Reykjavíkur ólst hann upp sem skákmaður, tefldi í sínum fyrstu mótum og hélt tryggð við félagið alla tíð.. Friðrik var fánaberi skáklistarinnar á Íslandi – og á sama tíma hófsmaður í allri framkomu, hlýr og ljúfur í samskiptum, og ávallt tilbúinn að styðja við bakið á yngri kynslóðum skákmanna, nú síðast við Vigni Vatnar sem ávallt hefur talað opinberlega um það hversu miklum eldmóð Frðrik blés í brjóst  hans.

Þó Friðrik hafi orðið heimsþekktur fyrir afrek sín – meðal annars með því að komast í áskorendamótið árið 1959, og leggja að velli fimm heimsmeistara á ferli sínum – þá lét hann sig ekki vanta þegar hann var beðinn um á viðburði Taflfélags Reykjavíkur og þegar Friðrik mætti, mætti hann ekki sem stórstjarna, heldur sem félagi, með áhuga og einlægni.

Friðrik að tafli fyrir TR í hina skiptið.

Friðrik að tafli fyrir TR á Íslandsmóti Skákfélaga  hinsta skiptið, í bakgrunni er stórmeistariainn Guðmundur Kjartansson

Friðrik vann alla Íslandsmeistaratitla sína sem TR-ingur og varð margfaldur sigurvegari Reykjavíkurskákmótsins, hvar hann síðast tók þátt árið 2013 – þá 78 ára gamall. Hann fylgdist iðulega með mótum og þau voru ófá skilaboðin og símtölin sem núverandi formaður TR fékk um framvindu skáka ungra íslenskra meistara…þá höfðu skákir þeirra iðullega fylgt framvindu skáka höfðingjans gegn helstu meisturum hans tíma og var samanburðurinn alltaf dreginn úr frábæru minni meistarans!

Úr nítugsafmæli Friðriks í janúar síðastliðnum.

Úr nítugsafmæli Friðriks í janúar síðastliðnum.

Kannski skiptir þó mestu hvernig hann hafði áhrif – með nærveru, fordæmi og þeirri virðingu sem hann sýndi jafnt leik og mönnum. Hann sýndi okkur hvernig maður getur verið bæði heimsmaður og heimamaður, hetja og félagi í einu.

Við í Taflfélagi Reykjavíkur erum honum ævinlega þakklát. Fyrir þá sýn sem hann gaf okkur, fyrir það veganesti sem hann skilur eftir og fyrir þá arfleifð sem við munum varðveita með stolti og virðingu.

Við vottum fjölskyldu og vinum Friðriks okkar dýpstu samúð.

Taflfélag Reykjavíkur