Skákakademían sigraði í Skákkeppni vinnustaða



Skákkeppni vinnustaða fór  fram í gærkvöldi, 1. febrúar, annað árið í röð. Í fyrra komu sex sveitir til leiks og nú ári síðar tóku sjö sveitir þátt. Það ríkti góð stemning meðal þátttakenda, en keppnisandinn var ekki langt undan!

 

Þrjár af þeim sveitum sem voru með í fyrra mættu einnig að þessu sinni, en það var Skákakademían, Actavis og Verzlunarskólinn. Til viðbótar bættust nú við Myllan, Strætó, Utanríkisráðuneytið og Landsbankinn.

 

Tefldar voru 7 umferðir, allir við alla, með 10. mín. umhugsunartíma. Hver sveit tefldi fram þremur keppendum.

 

Athygli vakti að sveit Landsbankans var í “vinnustaðabúning” þ.e. peysu merkta Landsbankanum. Var þetta vel til fundið og var haft á orði að þar með hafi Landsbankamenn gefið tóninn fyrir keppnina á næsta ári!

En nú að framvindu og úrslitum keppninnar. Eftir 4 umferðir hafði Landsbankinn forustuna með með 12 vinninga á meðan Skákakademían hafði “misst” einn vinning niður í fyrstu umferð gegn Myllunni, þegar Þorvarður F. Ólafsson lagði Hjörvar Stein Grétarsson.

 

Skákakademían vann síðan allar viðureignir sínar með fullu húsi. Keppnin um annað og þriðja sætið var, þegar hér var komið sögu, á milli Landsbankans, Actavis og Myllunnar.

 

Í síðustu umferð mættust svo Skákakademían og Actavis sem og Landsbankinn og Myllan. Skákakademían vann Actavis 3-0 og á meðan vann Landsbankinn Mylluna 3-0.

 

Leikar fóru því svo að Skákakademían sigraði keppnina í annað sinn með 20 vinninga af 21. Í öðru sæti varð Landsbankinn með 16 vinninga og jöfn í 3.-4. sæti urðu Myllan og Actavis. Eftir fyrsta stigaútreikning voru liðin aftur jöfn og þá skáru innbyrðis úrslit um verðlaunasæti. Það var því Myllan sem lenti í 3. sæti þar sem þeir höfðu unnið 21/2 – ½ gegn Actavis í 2. umferð.

Í sigurliði Skákakademíunnar voru:

 

1.     Hjörvar Steinn Grétarsson 6 v. af 7.

2.     Björn Ívar Karlsson 7 v.

3.     Stefán Bergsson 7 v.

 

Í silfurliði Landsbankans voru:

 

1.     Bergsteinn Einarsson 5 v.

2.     Gunnar Björnsson 5 v.

3.     Ólafur Kjartansson 6 v.

 

Í bronsliði Myllunnar voru:

 

1.     Þorvarður F. Ólafsson 5,5 v.

2.     Einar Valdimarsson 4 v.

3.     John Ontiveros 4 v.

 

4. sæti Actavis 13, 5 v.
5. sæti Utanríkisráðuneytið 9,5 v.
6. sæti Verzlunarskólinn 7v.
7. sæti Strætó 4,5 v.

 

Veittir voru eignabikarar fyrir vinnustaðina sem lentu í 1.-3. sæti auk þess sem Skákakedemían sem sigurvegari fékk farandbikar til vörslu í eitt ár. Keppendur þriggja efstu liðanna fengu medalíur.

 

Á meðan mótinu stóð var kaffi og meðlæti í boði Taflfélags Reykjavíkur.

 

Taflfélag Reykjavíkur þakkar vinnustöðunum og skákmönnum þeirra fyrir þátttökuna og skemmtilega keppni og vonar að áhugi vinnustaða fyrir þessu skákmóti eigi eftir að vaxa enn frekar.

 

Skákstjóri var Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.

Ljósmyndir tóku Áslaug Kristinsdóttir og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.