Skákæfingar Taflfélags Reykjavíkur hefjast á ný laugardaginn 3.september. Æfingarnar eru fjölbreyttar sem fyrr og hannaðar til þess að mæta þörfum sem flestra áhugasamra skákbarna. Á æfingum félagsins munu börnin fá markvissa kennslu og persónulega leiðsögn sem mun nýtast þeim sem grunnur að framförum í skáklistinni.
Æfingagjöldum fyrir haustmisseri hefur verið stillt í hóf og eru þau 8.000kr fyrir þá æfingahópa sem eru einu sinni í viku. Fyrir þá sem æfa tvisvar í viku eru æfingagjöldin 14.000kr fyrir haustmisserið. Veittur verður systkinaafsláttur í formi 50% afsláttar. Öllum er frjálst að koma í prufutíma án endurgjalds.
Börn geta sem fyrr tekið þátt í Laugardagsæfingunni (kl.14-16) án endurgjalds. Laugardagsæfingarnar, sem hafa verið flaggskip TR um áratugaskeið, verða með örlítið breyttu sniði frá því sem verið hefur, því til stendur að tefla eingöngu á æfingunni.
Taflfélag Reykjavíkur býður upp á sex mismunandi skákæfingar veturinn 2016-2017:
Byrjendaæfing I: Lau kl.10:40-11:00 (frítt)
Á þessari æfingu verður eingöngu manngangurinn kenndur. Þessi æfing er því kjörin fyrir þau börn af báðum kynjum sem vilja læra mannganginn frá grunni eða vilja læra tiltekna þætti manngangsins betur. Umsjón með æfingunum hefur Torfi Leósson.
Byrjendaæfing II: Lau kl.11:15-12:15 (8.000kr)
Þessi æfing er hugsuð fyrir börn af báðum kynjum sem kunna allan mannganginn og eru þyrst í að læra meira og ná betri tökum á skáklistinni. Umsjón með æfingunum hefur Torfi Leósson.
Stúlknaæfing: Lau kl.12:30-13:45 (8.000kr)
Þessi æfing hefur fest sig í sessi sem ein fjölmennasta skákæfing TR. Fyrirkomulag æfingarinnar er óbreytt frá því sem verið hefur síðustu misseri og eru allar stúlkur á grunnskólaaldri velkomnar að slást í hópinn. Umsjón með æfingunum hefur Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir.
Laugardagsæfing: Lau kl.14:00-15:55 (frítt)
Laugardagsæfingarnar verða með eilítið breyttu sniði þetta starfsárið. Til stendur að tefla allan tímann og verður blásið til Stigakeppni sem verður með keimlíku sniði og stigakeppnin sem sló svo eftirminnilega í gegn á síðasta vormisseri. Æfingin er fyrir bæði stráka og stelpur og er án endurgjalds. Umsjón með æfingunum hefur Veronika Steinunn Magnúsdóttir.
Afreksæfing A: Lau kl.16:05-17:35 & Fim kl.16:00-17:30 (14.000kr)
Afreksæfing A verður með hefðbundnu sniði frá því sem verið hefur og er æfingin hugsuð fyrir sterkustu skákbörn og unglinga TR af báðum kynjum. Æft verður tvisvar í viku, á fimmtudögum og laugardögum. Umsjón með æfingunum hefur Daði Ómarsson.
Afreksæfing B: Sun kl.10:45-12:15 (8.000kr)
Afreksæfing B er ný af nálinni og er henni ætlað að koma til móts við þau skákbörn TR, af báðum kynjum, sem hafa mikinn áhuga á að taka framförum í skáklistinni. Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir þau sem vilja ná langt í skák en eru komin styttra á veg en þau sem eru í Afrekshópi A. Umsjón með æfingunum hefur Kjartan Maack.