Skákæfingar barna og unglinga að hefjast!



Áratuga löng hefð er fyrir laugardagsæfingum Taflfélags Reykjavíkur. Þær hefjast aftur eftir sumarfrí laugardaginn 3. september kl. 14. Að venju fara æfingarnar fram í húsnæði félagsins að Faxafeni 12.

Í fyrra mætti oftar en ekki vel á fjórða tug barna á æfingarnar en alls voru í kringum 100 börn sem sóttu þær. Á æfingunum eru sett upp skákmót, skákkennsla fer fram og skákþrautir leystar ásamt ýmsum öðrum uppákomum. Þá er boðið upp á léttar veitingar um miðbik æfinganna en sá partur er orðinn órjúfanlegur hluti af æfingunum hjá börnunum.

Haldið er utan um mætingu og árangur barnanna og hverri æfingu er gerð góð skil í ítarlegum pistlum.

Aðgangur er ókeypis og eru æfingarnar ætlaðar börnum fæddum 1999 og síðar.

Skákþjálfari á Laugardagsæfingunum er Torfi Leósson. Umsjón með laugardagsæfingunum skipta þær með sér, Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, formaður T.R. og Elfa Björt Gylfadóttir sem situr í stjórn félagsins.

Þar sem aðsókn hefur verið mjög góð á skákæfingunum síðastliðna vetur hefur verið ákveðið að hafa nýjan unglingahóp fyrir unglinga fædd 1996-1998 (8.-.10. bekk). Þessi hópur er einungis fyrir félagsmenn Taflfélags Reykjavíkur. Skákþjálfarar unglingahópsins verða Daði Ómarsson og Eiríkur K. Björnsson. Allir þrír skákþjálfararnir eru sterkir, reyndir og virkir skákmenn með yfir 2000 Elostig.

Æfingatíminn fyrir unglingahópinn verður auglýstur bráðlega. Áhugasamir sendi nafn og símanúmer á taflfelag@taflfelag.is