Fyrir skömmu var kosin ný stjórn hjá Taflfélagi Reykjavíkur og komu þar sterkir inn Omar Salama og Elvar Örn Hjaltason. Omar var einmitt skákstjóri á Þriðjudagsmótinu þann 23. júní síðastliðinn, en hann er nokkuð kunnugur staðháttum þegar kemur að skákstjórn. Fide-meistarinn feiknasterki Sigurður Daði Sigfússon sigraði mótið með fullu húsi en þrír skákmenn komu í humátt á eftir með þrjá vinninga, Helgi Hauksson, Mikael Bjarki Heiðarsson og Vigfús Óðinn Vigfússon. Mikael Bjarki var stigastökkvari mótsins og hækkaði um heil 27 atskákstig. 15 skákmenn mættu á mótið. Úrslit mótsins má nálgast á chess-results.
Gauti Páll Jónsson sigraði svo með fullu húsi á þriðjudagsmótinu þann 30. júlí eftir að hafa bakað ljúffenga súkkulaðiköku handa keppendum, með hjálp Hagkaupa. Næstir urðu Torfi Leósson og Davíð Stefánsson með þrjá vinninga. 11 skákgeggjarar létu sjá sig á þessu síðasta Þriðjudagsmóti í bili. Úrslit má nálgast á chess-results.
Mótin munu aftur hefjast þriðjudaginn 1. september og með breyttu sniði, nú verður teflt til skiptis, atskák með tímamörkunum 15+5 og hraðskák með tímamörkunum 3+2, allt reiknað til stiga. Taflfélag Reykjavíkur þakkar fyrir góða þáttöku og skemmtileg mót, hlökkum til að sjá ykkur aftur í haust.