Sigur og tap hjá TR-ingunum í 1. umferð EM ungmenna



Evrópumeistaramót ungmenna í skák er nú haldið í 23. sinn og fer að þessu sinni fram í strandbænum Budva í Svartfjallalandi, einni elstu landnemabyggð við strendur Adría hafsins en bærinn er 3.500 ára gamall.  Venju samvæmt er teflt í aldursskiptum drengja- og stúlknaflokkum þar sem yngsti flokkurinn er 8 ára og yngri og sá elsti 18 ára og yngri en alls eru flokkarnir tólf talsins.

 

Átta fulltrúar Íslands eru meðal þátttakenda í mótinu og koma tveir þeirra frá Taflfélagi Reykjavíkur, þau Vignir Vatnar Stefánsson, sem teflir í flokki 10 ára, og Veronika Steinunn Magnúsdóttir, sem teflir í flokki 16 ára.  Þrátt fyrir ungan aldur er Vignir Vatnar þegar kominn með mikla reynslu og tekur nú þátt í sínu þriðja Evrópumóti og þá náði hann eftirtektarverðum árangri í Heimsmeistaramóti ungmenna 2012.  Veronika tekur nú þátt í sínu fyrsta Evrópumóti en hún hefur verið meðal þátttakenda í Norðurlandamóti stúlkna síðustu fjögur ár.  Vignir er núverandi Íslandsmeistari barna og Veronika er Íslandsmeistari stúlkna.

 

Taflfélag Reykjavíkur óskar Vigni Vatnari og Veroniku Steinunni, ásamt hinum íslensku keppendunum sex, góðs gengis í baráttunni.  Fylgst verður með gengi Vignis og Veroniku á vef Taflfélags Reykjavíkur og pistlar birtir um framgang mála hjá þessum verðugu fulltrúum þjóðarinnar.

 

Fyrsta umferð fór fram í dag en alls verða tefldar níu umferðir sem allar hefjast kl. 14 að íslenskum tíma að undanskilinni lokaumferðinni sem hefst kl. 12.  Vignir Vatnar er tólfti í stigaröðinni af 123 keppendum í flokknum en Vignir er nú með 1782 Elo stig en stigahæsti keppandi flokksins hefur 1935 stig.  Miðað við hve ofarlega Vignir er á stigum má gera ráð fyrir að hann fái nokkuð lakari andstæðinga í fyrstu umferðunum og í dag tefldi hann við dreng frá Moldóvu en sá hefur 1428 stig.  Vignir, sem hafði hvítt, sigraði og mun á morgun að öllum líkindum mæta ívið stigahærri andstæðingi.

 

Veronika Steinunn er númer 59 í stigaröðinni í sínum flokki en þar eru keppendur 65 talsins og því ljóst að Veronika á ærið verkefni fyrir höndum.  Veronika hefur 1577 Elo stig en stigahæsti keppandi flokksins hefur 2244 stig og er önnur tveggja alþjóðlegra meistara kvenna í flokknum.  Veronika hafði í dag svart gegn ungverskri skákkonu með 1932 stig og beið lægri hlut.

 

Önnur umferð fer fram á morgun en pörun hennar liggur ekki fyrir þegar þetta er skrifað.  Þó er ljóst að Vignir Vatnar teflir við stigalægri andstæðing en því verður öfugt farið hjá Veroniku.

  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins