Sergey Fedorchuk í T.R.



Úkraínski ofurstórmeistarinn Sergey Fedorchuk (2667) er genginn til liðs við Taflfélag Reykjavíkur. Fedorchuck varð evrópumeistari unglinga undir 14 ára árið 1995, en meðal annara afreka hans má nefna efsta sætið á Cappelle la Grande Open árið 2008, ásamt TR-ingunum Vugar Gashimov (2737), Erwin L’Ami (2640), nýbökuðum skákmeistara Úkraínu, Yuriy Kryvoruchko (2678) og fleirum. Einnig sigraði hann á Dubai Open 2006 ásamt Armenunum Sargissian og Petrosian.

Sergey Fedurchuck bætist því við stóran hóp öflugra erlendra stórmeistara félagsins, en fyrir eru hjá félaginu svo nokkrir séu nefndir, heimsmeistarinn fyrrverandi Anatoly Karpov, skákdrottningin Judit Polgar, Gata Kamsky, Jan Smeets, Mykhailo Oleksienko og fyrrnefndir Erwin L’Ami og skákmeistari Úkraínu Yuriy Kryvoruchko.

Fedorchuck mun leiða fríðan hóp sem tekur þátt í lokuðu 9 umferða stórmeistaramóti Taflfélags Reykjavíkur sem haldið verður í skákhöll TR í Faxafeni í byrjun október.  Frekari fréttir af þáttakendum á því geysiöfluga móti munu berast á næstu dögum og vikum.