Róbert Lagerman hlutskarpastur á Stórmóti Árbæjarsafns og TR



Árlegt Stórmót Árbæjarsafns og TR fór fram síðastliðinn sunnudag. Að þessu sinni var mótið tveimur vikum síðar en vanalega en það kom til af því að Árbæjarsafn hélt upp á 65 ára afmæli sitt helgina sem mótið er að öllu jöfnu. Þetta hafði tvenns konar afleiðingar: Mótið var nú ekki upphafið að vetrarstarfsemi TR og skákmótum á Íslandi að hausti eins og hefð hefur verið fyrir (Borgarskákmótið, sem TR heldur líka, fékk það hlutverk í þetta sinn) en auk þess var upphafsmaður og guðfaðir mótsins, Torfi Leósson, fjarri góðu gamni. Í skarðið fyrir hann hlupu aðrir stjórnarmenn Taflfélagsins.

Önnur nýlunda var smekklegt skraut í lofti salarins sem mótið fór fram í. Það voru þó ekki skákstjórarnir Eiríkur K. Björnsson og Jon Olav Fivelstad sem höfðu hannað og hengt það upp (okkur datt reyndar í hug að reyna að eigna okkur heiðurinn af því); heldur var brúðkaupsveisla í rýminu kvöldið áður. Umræddur salur er í Kornhúsinu en þar hafa þessi mót farið fram undanfarin ár. Húsið er talið byggt um 1820 og stóð lengst af á Vopnafirði en var flutt á Árbæjarsafn á vegum Þjóðminjasafnins 1975 og loks gefið Árbæjarsafni þegar það varð 25 ára, fyrir 40 árum. Á 19. öld var fjöldi slíkra húsa á Íslandi og voru geymsluhús fyrir kaupmenn sem lengst af voru danskir. Nú eru ekki mörg af þessum húsum eftir og fagnaðarefni að varðveita með myndarlegum hætti þessar minjar um aðra verslunarhætti en nú tíðkast og hafa húsið aðgengilegt almenningi. Vel er að því búið enda góður andi húsinu og gott að tefla þar.

Úrslit voru eftir bókinni í fyrstu tveimur umferðunum en í 3. umferð hófust sviptingar; Gauti Páll hafði betur í viðureign sinni við Arnar Gunnarsson en tapaði síðan fyrir Jóhönnu Björgu í 4. umferð. Áfram reittu toppmenn vinninga hver af öðrum. Að lokum hafði Róbert Lagerman sigur en í öðru sæti en jafnhár að vinningum varð Arnar Gunnarsson sem missteig sig ekki eftir 3. umferðina. Þriðja sæti deildu síðan þeir Gauti Páll og Arnar Milutin Heiðarsson en Gauti hærri á stigum.

Öll úrslit og lokastöðu Stórmótsins má annars nálgast hér á chess-results.