Róbert Hraðskákmeistari öðlinga 2016IMG_8119

Hraðskákmeistari öðlinga 2016 í góðum félagsskap skákdrottninganna.

Róbert Lagerman sigraði á Hraðskákmóti öðlinga sem fram fór í gærkveld en hann hlaut 5,5 vinning í skákunum sjö. Guðlaug Þorsteinsdóttir kom jöfn Róberti í mark en varð að láta sér annað sætið nægja eftir stigaútreikning og þriðja með 5 vinninga var Lenka Ptacnikova.

IMG_8121

Verðlaunahafar á Skákmóti öðlinga. Skákmeistari öðlinga 2016 Stefán Arnalds og jafnir í 2.-3. sæti Þorvarður Ólafsson og Siguringi Sigurjónsson.

Góð stemning var í Skákhöll TR þar sem keppendur gæddu sér á ljúffengum veitingum á milli umferða og úr varð hið skemmtilegasta mót þar sem spennan var mikil. Að loknum fjórum umferðum voru þrír keppendur efstir og jafnir með 3,5 vinning en ásamt Róberti og Guðlaugu var þar á meðal Siguringi Sigurjónsson sem lætur sér fátt um finnast þó hann keyri frá suðurnesjum til að sækja mót félagsins.

IMG_8118

Skákfrömuðurinn Finnur Kr. Finnsson tjáði skákstjóra það að þessi tímamörk væru hæpin fyrir menn á níræðisaldri! Finnur er sannarlega virkur í að sinna skákgyðjunni.

Í fimmtu umferð vann svo Guðlaug góðan sigur á Róberti á meðan Siguringi gerði jafntefli við Ögmund Kristinsson. Á sama tíma lagði Lenka Einar Valdimarsson og því var staðan á toppnum orðin þannig að Guðlaug var efst með 4,5 vinning en Siguringi og Lenka fylgdu í humátt með 4 vinninga.

IMG_8113

Rafmagnað andrúmsloft í Skákhöllinni.

Sjötta og næstsíðasta umferð var síðan æsispennandi þar sem viðureign skákdrottninganna, Lenku og Guðlaugar, á efsta borði stóð uppúr. Æsileg barátta þeirra í milli í lokin endaði með því að Guðlaug féll á tíma í jafnteflislegri stöðu þar sem Lenka reyndi mikið að kreista fram sigur peði yfir. Við hlið þeirra knésetti Róbert Siguringa og skaust því í annað sætið ásamt Guðlaugu en Lenka leiddi með 5 vinninga.

IMG_8117

Gaman var að sjá Pétur Jóhannesson mættan aftur til leiks eftir nokkurt hlé. Hann sést þó ekki mikið hér enda í þungum þönkum gegn Herði Jónassyni.

Í lokaumferðinni sigraði síðan Róbert Lenku nokkuð þægilega og slíkt hið sama gerði Guðlaug gegn Einari. Lokastaðan því eins og áður segir og hafði Róbert á orði að aðalatriðið væri að vera efstur eftir síðustu umferð og að þarna hefði hann sannarlega bjargað heiðri karlpeningsins. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þær stöllur saman á verðlaunapalli en sigurvegari mótsins virtist njóta sín einkar vel í myndatökunum.

IMG_8097

Öðlingamótunum er því formlega lokið og óskum við verðlaunahöfum til hamingju og þökkum öllum keppendum fyrir þátttökuna. Sjáumst að ári!

Lokastaðan