Reykjavíkurmót Grunnskólasveita fór fram í tveimur hlutum, yngsti flokkur á mánudeginum 3. mars en tveir elstu flokkarnir þriðjudaginn 4. mars. Mótið er sem fyrr samstarfsverkefni Frístundasviðs Reykjavíkur og Taflfélags Reykjavíkur og hefur verið svo í fjölda ára. Mótinu var eins og áður sagði skipt í þrjá aldursflokka eins og undanfarin ár. Teflt var í Friðrikssalnum hjá Taflfélagi Reykjavíkur og fjölmenni í salnum báða dagana sem endranær á þessum mótum.
Lítum á gang mála í þessari skemmtilegu keppni.
1-3. bekkur
Í yngsta flokknum voru 14 sveitir skráðar til leiks. Eftir sjö granítharðar umferðir var það Rimaskóli sem stóð einn efstur með 23 vinninga enn og aftur eftir harða keppni við Melaskóla sem hlutu 22 vinninga. Þessar sveitir börðust einnig hart á Jólamótinu fyrir áramót.
Þriðja sætið féll í hlut Vesturbæjarskóla A með 20,5 vinning en þessar þrjár sveitir voru í nokkrum sérflokki. Efsta sveit stúlkna var síðan Stúlknasveit Rimaskóla með 14 vinninga
1.sæti Rimaskóli A 23 vinningar
2.sæti Melaskóli 22 vinningar
3.sæti Vesturbæjarskóli A 20,5 vinningar


4-7. bekkur
Á þriðjudeginum var það fyrst 4-7 bekkur sem hóf leik. Þar voru 19 lið skráð til leiks og var Friðrikssalurinn í Faxafeninu nánast kominn að þolmörkum og gott að njóta liðsinnis Skákskólans við að fá lánuð salarkynni! Hér var einnig hart barist en þegar á leið reyndist Rimaskóli í nokkrum sérflokki. Aftur var það A sveit Rimaskóla sem varð hlutskörpust en stúlknasveitin náði öðru sæti á meðan að efnilegt lið Langholtsskóla endaði í þriðja sæti, sæti neðar en í Jólamótinu.
1.sæti Rimaskóli A 23,5 vinningar
2.sæti Rimaskóli stúlknasveit 18,5
3.sæti Langholtsskóli 18 vinningar
Rimaskóli stúlknasveit hlaut stúlknaverðlaun ásamt silfrinu, frábær árangur!
8-10. bekkur
Í elsta flokknum var það Hagaskóli sem varð hlutskarpastur með 16 vinninga og rétt höfðu betur en jólameistaranir í Réttarholtsskóla á innbyrðis viðureign en Hagaskóli lagði Réttó 3-1.
1. sæti Hagaskóli 16 vinningar

Gaman var að sjá Matthías Björgvin aftur við skákborðið eftir smá hlé!
2. sæti Réttarholtsskóli 16 vinningar
3. sæti Laugalækjarskóli 13 vinningar.
Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum skólum fyrir þátttöku og Reykjavíkurborg fyrir samstarfið og stefnum á hærri þátttökutölur á næsta keppnistímabili!