Reykjavíkurmót grunnskólasveita hefst í húsnæði TR að Faxafeni 12 mánudaginn 3. febrúar kl. 16.30 með keppni 1.-3. bekkjar. Mótið er sem fyrr samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Taflfélags Reykjavíkur.
Mótinu verður skipt í þrennt að þessu sinni; 1.-3. bekkur, 4.-7. bekkur og 8.-10. bekkur. Keppni 4.-7. bekkjar og 8.-10. bekkjar fer fram daginn eftir, þriðjudaginn 4. febrúar.
Tefldar verða 7 umferðir með umhugsunartímanum 5 mínútur fyrir hverja skák og bætast 3 sekúndur við eftir hvern leik (5+3). Allir grunnskólar Reykjavíkurborgar eru hvattir til þess að senda skáksveitir í mótið. Engar takmarkanir eru á fjölda skáksveita og er skáksveitum hvers skóla styrkleikaraðað með bókstöfum (a-sveit, b-sveit, c-sveit og svo framvegis). Í hverri skáksveit tefla 4 keppendur og má hver sveit hafa 0-2 varamenn. Keppanda er heimilt að tefla í eldri flokki en aldur hans segir til um, en þó má einungis tefla í einum flokki (sem dæmi þá má keppandi í 3.bekk tefla í flokki 4.-7.bekkjar, en hann getur þá ekki teflt í flokki 1.-3.bekkjar). Mikilvægt er að liðsstjóri fylgi liðum hvers skóla og er æskilegt að hver liðsstjóri stýri ekki fleiri en þremur liðum.
Dagskrá keppninnar:
- Mánudagur 3.febrúar kl.16:30-19:15; 1.-3.bekkur.
- Þriðjudagur 4.febrúar kl.16:30-19:15; 4.-7.bekkur.
- Þriðjudagur 4.febrúar kl.19:30-22:15; 8.-10.bekkur.
Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki. Einnig fær efsta stúlknasveit hvers flokks verðlaun.
Skráning fer fram í gegnum skráningarform sem finna má í gula kassanum á skak.is. Skráningu í mót 1.-3.bekkjar lýkur sunnudaginn 2. febrúar klukkan 21:00. Skráningu í hina tvo flokkana lýkur mánudaginn 3. febrúar klukkan 21:00. Ekki verður hægt að skrá lið á mótsstað.