Rayan Sharifa og Tómas Möller urðu efstir og jafnir á öðru móti Bikarsyrpu TR sem fór fram um nýliðna helgi. Báðir hlutu þeir 5,5 vinning úr skákunum sjö en Rayan var sjónarmun á undan eftir útreikning oddastiga (tiebreakes) og hlýtur því efsta sætið. Í þriðja sæti, og jafnframt efst stúlkna, varð Iðunn Helgadóttir með 5 vinninga en fjórir keppendur fylgdu á eftir með 4,5 vinning.
Alls voru keppendur 25 talsins sem er fínasta þátttaka, sérstaklega í ljósi þess að stór hópur fastagesta Bikarsyrpunnar var í skákferð í Svíþjóð á vegum skákdeilda Fjölnis og Breiðabliks – glæsilegt framtak það! Mótahald fór vel fram og úr varð mjög jafnt og spennandi mót þar sem úrslit réðust ekki fyrr en að lokinni síðustu skák mótsins á milli Rayans og Arnars Valssonar. Lokastöðu mótsins má að venju sjá á Chess-Results.
Stutt er í að þriðja mót syrpunnar fari fram en það verður helgina 29. nóv – 1. des. Sjáumst þá!