Fjölmennt Skákþing Reykjavíkur er í fullum gangi og hefst fjórða umferð á miðvikudagskvöld kl. 19.30. Sterkustu keppendurnir fara nú að mætast innbyrðis og á efsta borði verður spennandi viðureign þar sem alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson stýrir hvítu mönnunum gegn stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu. Á næsta borði hefur Þorvarður F. Ólafsson hvítt gegn Fide meistaranum Sigurbirni Björnssyni en báðir hafa þeir átt góðu gengi að fagna við skákborðið á síðustu misserum. Þrátt fyrir að Sigurbjörn hafi 120 Elo stigum meira en keppinautur sinn er Þorvarður harður í horn að taka og ljóst að þarna verður hart barist.Á þriðja borði mun KR-ingurinn knái, Atli Jóhann Leósson, eiga á brattann að sækja með svörtu gegn Fide meistaranum Einari Hjalta Jenssyni enda styrkleikamunur mikill. Skákmeistari T.R., Kjartan Maack, hefur síðan hvítt gegn Fide meistaranum Davíð Kjartanssyni sem hefur átt brösugt gengi það sem af er móti. Þá má nefna athyglisverða viðureign á milli Nansýjar Davíðsdóttur, Íslandsmeistara barna 2012, og Vignis Vatnars Stefánssonar, Íslandsmeistara barna 2013 og 2014.
Áhorfendur eru hvattir til að líta við í Faxafeninu og berja barátturnar augum, skrafa við viðstadda um stöðurnar og gæða sér á ljúffengum veigum úr Birnukaffi.