Politiken Cup hófst í dag



Í dag hófst hið stóra og árlega mót, Politicen Cup, í Danmörku.  Að þessu sinni eru 307 skákmenn skráðir í aðalmótið en þar af eru fimm Íslendingar og á meðal þeirra eru tveir úr Taflfélagi Reykjavíkur; Daði Ómarsson (2091) sem er einn efnilegasti skákmaður landsins og Atli Antonsson (1720), sem snýr nú aftur að skákborðinu eftir nokkurra ára hlé.  Aðrir Íslendingar á mótinu eru alþjóðlegi meistarinn, Bragi Þorfinnsson (2377) úr Taflfélagi Bolungarvíkur, Bjarni Jens Kristinsson (1985) úr Helli og Ólafur Gísli Jónsson (1899) úr KR.

Stigahæstur keppenda er rússneski stórmeistarinn, Vladimir Malakhov (2707)  en margir þekktir skákmenn taka þátt, s.s. danski stórmeistarinn, Peter Heine Nielsen (2680), hollenski stórmeistarinn, Sergei Tiviakov (2674) og rússneski stórmeistarinn, Alexey Dreev (2660).

Í fyrstu umferð vann Daði Danann, Steen Dahlgard Jensen (1608), en Atli tapaði fyrir Dananum, Morten Møller Hansen (2144).  Bragi vann en Ólafur og Bjarni töpuðu sínum skákum.

Í annarri umferð sem fer fram á morgun kl. 9 að staðartíma mætir Daði pólska Fide meistaranum, Krzysztof Bulski (2392), en Atli etur kappi við hinn danska, Torben Rosholm Pedersen (1987).  Þriðja umferð fer sömuleiðis fram á morgun og hefst hún kl. 16 að staðartíma.

Heimasíða mótsins