Pistlar byrjendaflokks og stúlknaflokks: Vorönn 2021



Fyrir þónokkrum árum ruddi sér til rúms flokkaskipting á skákæfingum Taflfélags Reykjavíkur og núna á laugardaginn fór fram síðasti tíminn á þessari vorönn í manngangskennslu og byrjendaflokki.

Eðli manngangskennslunnar er slíkt að krakkar stoppa þar stutt við, mæta e.t.v. í nokkra tíma eða nokkra mánuði og eftir að hafa náð fullum tökum á þessum grunnatriðum skáklístarinnar halda þau áfram í byrjendaflokki. Manngangskennslan er því að öllu jöfnu ekki fjölmenn, en öðru máli gegnir um byrjendaflokkinn. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir og allt sem því fylgir hafa 40 krakkar stundað eða prófað byrjendaæfingarnar í vor og hefur mæting í hvert sinn yfirleitt verið yfir 20 krakkar, eða rétt undir 20.

Það hefur því verið mikil gleði á æfingunum og tækifæri fyrir krakkana til að reyna sig við nýja og nýja leikfélaga. Að sama skapi er aðdáunarvert hvað þessir ungu hugsuðir hafa tekið skákina föstum tökum og lagt sig fram um að leysa þrautir og að æfa sig í að máta undir handleiðslu þjálfaranna Torfa Leóssonar og Gauta Páls Jónssonar.

Á laugardaginn voru veittar viðurkenningar fyrir bestu mætingar. Í raun hefði mátt mestöllum hópnum viðurkenningu, því mæting hefur verið með afbrigðum góð, en þrír ungir menn voru fremstir meðal jafningja:

Huginn Auðar Héðinsson, sem missti aðeins út 3 æfingar, fékk bronzmedalíu.
Matthías Kári Jóhannsson, sem missti aðeins út 1 æfingu, fékk silfurmedalíu.
Sigurður Erik Hafstein, sem missti ekki af neinni æfingu!, fékk gullmedalíu.

Eftir viðurkenningarnar var boðið upp á hátíðarhressingu, allt saman innpakkað og veirufælið.

Við vonumst til að sjá flesta krakkana aftur í haust og þá liggur fyrir að bæta á við einum flokki sem Gauti Páll mun taka að sér og hentar þeim lengst komnu sem eru í byrjendaflokki nú.

Torfi Leósson

byrjendur1 byrjendur2

Síðasta stúlknaskákæfing vetrarins fór fram í húsnæði TR laugardaginn 8. maí. Við náðum því alls 15 skákæfingum á þessari önn, þrátt fyrir lokun vegna sóttvarnarreglna í nokkrar vikur. Við þökkum fyrir það!

Í vetur hafa að jafnaði 10 stúlkur sótt æfingar á laugardögum. Þar að auki hafa nokkrar til viðbótar (systur eða vinkonur) komið í prufutíma, til þess að sjá hvernig þetta fer fram. Stelpurnar hafa verið áhugasamar og tekið þátt í skákþrautum, taflmennsku og ýmis konar skákleikjum. Þetta er flottur hópur, nokkrar sem hafa þekkst í gegnum skákina í nokkur ár og svo nýjar stelpur, sem hafa verið teknar opnum örmum inn í hópinn. Sjaldnast algjör lognmolla á æfingum, enda stelpurnar hressar og kátar.

Að venju voru veitt mætingaverðlaun fyrir bestu mætinguna á þessari vorönn. Það voru fjórar stúlkur sem voru með afgerandi bestu mætinguna og fengu þær medalíur. Það voru þær Gerður Helgadóttir og Hildur Birna Hermannsdóttir, sem fengu gullmedalíu, Bergþóra Helga Gunnarsdóttir, sem fékk silfurmedalíu og Patricia Sola Neton (Patty), sem fékk bronsmedalíu.

Auk þeirra mættu í dag Nadia, sem kom hjólandi langar leiðir og Ragnheiður, sem kom beint úr dósasöfnun fyrir íþróttafélag á æfingu. En það er einmitt einkennandi fyrir skákstelpurnar að þær eru með krefjandi áhugamál, eins og íþróttir og tónlist, fyrir utan skákina.

Þá eru skákæfingar stúlkna komnar í sumarfrí. Stelpurnar fengu skákhefti með sér heim, til þess að stúdera í sumar, auk þess sem þær ætla allar að tefla við vini og ættingja í sumar ?
Takk fyrir veturinn og gleðilegt sumar!

Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir 

 stulkur1 stulkur2 stulkur3