Alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2384), tók á dögunum þátt í First Saturday mótinu sem fram fór í Búdapest, Ungverjalandi. Mótin fara fram í hverjum mánuði og hefjast, eins og nafnið gefur til kynna, fyrsta laugardag hvers mánaðar.
Guðmundur tefldi í stórmeistaraflokki og var sjöundi í stigaröðinni af tólf keppendum. Meðalstig keppenda voru 2411. Guðmundur náði sér ekki almennilega á strik að þessu sinni og hafnaði í 11. sæti með 4,5 vinning.
Guðmundur heldur þessu næst til Tékklands þar sem hann tekur þátt í Czech Open. Spennandi verður að fylgjast með hvort hann nái að landa sínum öðrum stórmeistaraáfanga.
Úrslit First Saturday mótsins má sjá á Chess-Results.
Pistil Guðmundar frá mótinu má lesa hér.