Óvænt úrslit í fyrstu umferð Haustmótsins



Haustmót Taflfélags Reykjavíkur 2010 hófst sl sunnudag þegar 64 keppendur settust við skákborðin í 110 ára afmælismóti félagsins.

Í a-flokki bar þar helst til tíðinda að Daði Ómarsson (2172) sigraði Guðmund Gíslason (2346) og stórmeistarinn, Þröstur Þórhallson (2381), og Jón Árni Halldórsson (2194) gerðu jafntefli eftir að sá fyrrnefndi reyndi lengi að hafa Jón undir með hrók og riddara gegn hróki.  Þá sigraði Sigurbjörn Björnsson (2300) alþjóðlega meistarann, Guðmund Kjartansson (2375), í nokkuð furðulegri skák. Sverrir Örn Björnsson (2161) og Gylfi Þórhallsson (2200) gerðu jafntefli en ein skák fer fram í kvöld, þriðjudag.

Í b-flokki gerðu Þór Valtýsson (2078) og hinn ungi og efnilegi, Örn Leó Jóhannsson (1820), jafntefli.  Einni skák var frestað.

Í c-flokki má helst nefna að annar ungur og efnilegur skákmaður, Svanberg Már Pálsson (1781), og Siguringi Sigurjónsson (1944), gerðu jafntefli en þremur af fimm viðureignum lauk með skiptum hlut.

Úrslit í d-flokki voru öll eftir bókinni og í opna flokknum er heldur ekki hægt að tala um óvænt úrslit.

Önnur umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Allar nánari upplýsingar eru á heimasíðu mótsins.