Óttar Felix segir sig úr stjórn T.R.



Óttar Felix Hauksson hefur ákveðið að taka sér hlé frá stjórnarstörfum fyrir Taflfélag Reykjavíkur að sinni.  Björn Jónsson kemur inn í stjórn í stað Óttars og Eiríkur Björnsson tekur að sér varaformennsku.  Óttar mun eftir sem áður vera meðlimur í félaginu líkt og síðustu áratugi.

Óttar sat fyrst í stjórn T.R. á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar og síðan aftur frá aldamótum til dagsins í dag.  Hann var formaður félagsins á árunum 2005-2009 en á síðasta aðalfundi lét hann af formennsku og við honum tók núverandi formaður, Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, en Óttar tók við varaformennsku.

Óttar hefur verið trúr og tryggur T.R. alla sína tíð og lagt mikið af mörkum í þágu félagsins.  Stjórn Taflfélags Reykjavíkur þakkar Óttari kærlega fyrir samstarfið og vonar að hann haldi áfram að láta gott af sér leiða þó hann standi nú fyrir utan stjórnina.