Helgina 6-8 maí fór fram fimmta og jafnframt lokamót Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur á tímabilinu 2021-2022. Ætlunin með þessum mótum hefur verið að gefa krökkum nasaþefinn af því hvernig er að tefla alvöru kappskákir (lengri tímamörk). Einnig hefur þetta reynst gott tækifæri fyrir keppendur að fá sín fyrstu skákstig. Til að það sé mögulegt þurfa hins vegar einhverjir þátttakendur að vera með stig.
–
Að þessu sinni var tekið upp á því að hafa beinar útsendingar á efstu borðum. Voru viðtökur frá keppendum og aðstaðdendum frekar jákvæð og verður því haldið áfram í næstu mótum. Ákveðnar spurningar vöknuðu um mismunandi fjölda live borða milli umferða. Réðst það nær eingöngu út frá því að skákborðin eru ekki merkt með hnitum sem hefði aukið flækjustigið hjá sumum við að skrifa skákirnar. Linkur á skákirnar var síðan birtur á Facebook groupunni íslenskir skákmenn fyrir hverja umferð á meðan fylgjast mátti með úrslitum ásamt pörun á Chess-results síðunni.
Þá að mótinu sjálfu!
Strax í fyrstu umferð sáust mjög óvænt úrslit. Á fyrsta borði endurtók Einar Helgi leikinn frá Bikarsyrpu III með því að vinna Guðrúnu Fanney í fyrstu umferð. Á öðru borði var það Þórarinn Víkingur sem var að taka þátt á sínu fyrsta kappskákmóti sem sigraði Markús Orra.
Eftir fjöruga fyrstu umferð voru næstu umferðir mikið eftir bókinni. Örvar Hólm tók samt fljótt forystu.
Ein skemmtileg skák sem mótshaldari vill minnast á var skák Aðalsteins og Kjartan Halldórs úr fjórðu umferð. Eftir að svartur hafði leikið nokkrum afleikjum í byrjuninni kom upp eftirfarandi staða
Aðalsteinn sem hafði hvítu mennina var búinn að tefla mjög vel og vantaði aðeins herslu muninn til að klára skákina. Kjartan sem var örugglega meðvitaður um hversu staðan hans var slæm lagði síðustu gildrununa sem var í boði með því að leika 20…Rg4. Með því bauð hann hvítum að vinna drottninguna sína. Hvítur þáði fórnina með 21.Bxe7 og eftir að Kjartan lék 21…Hh2+ gat hvíti kóngurinn ekki sloppið frá þráskákunum á h2 og g2 og því jafntefli niðurstaða.
Í loka umferð laugardagsins mættust Níels og Örvar Hólm á fyrsta borði. Eftir að hafa unnið peð í byrjuninni þróaðist skákin yfir í mislita biskupa endatafl. Með seiglu náði Örvar að kreista fram vinning og með sigrinum fór hann með vinnings forskot yfir á lokadag mótsins.
Á loka degi mótsins var keppnin færð yfir í glæsilegar aðstæður Skákskólans þar sem fór vel um keppendur.
Í fimmtu umferð mættust Markús og Örvar og telfd var frönsk vörn. Eftir smá ónákvæmni í byrjuninni féll hvíta miðborðið saman og Örvar vann skákina nokkuð sannfærandi.
Fyrir síðustu umferð var síðan kominn upp sérstök staða. Örvar Hólm var einn efstur með fullt hús og leiddi með 1.5 vinningi yfir næstu keppendur og þess vegna búinn að tryggja sér sigurinn. Hann var hins vegar í þeirri stöðu að þurfa að sleppa síðustu umferð vegna fóboltamóts og var þess vegna ekki paraður í lokaumferð mótins. Flottur sigur hjá Örvari sem fór ósigraður í gegnum mótið og vann sitt fyrsta kappskákmót.
Baráttan í lokaumferðinni var þess vegna um annað sætið. Á fyrsta borði mættust Guðrún Fanney og Markús sem voru bæði í topp baráttunni og telfd var Nimzo Indversk vörn. Staðan sem kom upp eftir byrjunina var frekar lokuð. Guðrún náði að opna stöðuna og fórna biskup sem leit mjög vel út við fyrstu sýn. Markúsi svaraði fórninni á réttan hátt en eftir einn afleik varð kóngs-vængurinn óverjandi sem tryggði Guðrúnu sigurinn og annað sætið í mótinu.
Síðasta skák mótsins til að ljúka var skák félaganna Kjartans og Jón Louie. Eftir flækjur í miðtaflinu þróaðist skákin yfir í nokkuð jafnt endatafl. Á lokametrum skákarinnar skipti skákin hins vegar fram og til baka um eigendur en að lokum endaði skákin í jafntefli.
Lokastaða mótsins
- Örvar Hólm Brynjarsson 6.0/7
- Guðrún Fanney Briem 5.5/7
- Níels Ingólfsson 4.5/7
Stúlkna verðlaun
Að þessu sinni voru tvær stúlkur sem tóku þátt.
- Guðrún Fanney Briem 5.5
- Halldóra Jónsdóttir 3.5
Efstur T.R-inga að þessu sinni var Níels Ingóflsson með 4.5 vinninga
Í lokinn var veittur veglegur farandbikar fyrir samanlagðan árangur á Bikarsyrpu mótum tímabilsins. Miðað var við vinningafjölda úr fjórum efstu mótum hvers keppenda. Þegar búið var að taka saman var ljóst að Markús Orri var einn efstur með 21 vinning. Á eftir honum komu síðan Örvar Hólm og Oliver. Frábær árangur hjá stráknum sem tefla allir fyrir Breiðblik!
- Markús Orri 21.0 vinninga
- Örvar Hólm 18.5
- Oliver 17.5
Einnig voru veitt sérstök verðlaun fyrir samanlagðan árangur félagsmanna TR á Bikarsyrpu mótum tímabilsins. Eins og með heildarverðlaunin voru efstu fjögur mótin metin. Fyrir það voru veittir einkatímar hjá sterkustu skákmönnum Taflfélags Reykjavíkur. Fyrir 1.sætið eru það 5 einkatímar, 3 fyrir 2.sætið og 2 fyrir 3.sætið.
- Einar Helgi Dóruson 15.5
- Jón Louie Thoroddsen 14
- Arnar Daði Pálsson 12.5
Taflfélag Reykjavíkur vill að lokum þakka öllum keppendum fyrir þátttöku
Næsta mótaröð mun hefjast í haust (auglýst síðar)
Fleiri myndir verða birtar á Facebook síðunum Íslenskir skákmenn og Taflfélag Reykjavíkur – Skákforeldrar
Skákir í beinni frá mótinu á pgn formati (1-4 umferð)