Jón Viktor enn með fullt hús á TölvuteksmótinuAlþjóðlegi meistarinn, Jón Viktor Gunnarsson, vann mjög öruggan sigur á Mikaeli Jóhanni Karlssyni í fjórðu umferð Haustmótsins sem fór fram í dag.  Líkt og í þriðju umferð stýrði Jón svörtu mönnunum og sá Mikael aldrei til sólar.  Þarna fer án efa dýrmæt reynsla í hendur Mikaels.  Jón er því enn efstur með fullt hús en alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason, fylgir í humátt því hann lagði Jóhann H. Ragnarsson eftir slæman afleik þess síðarnefnda og er því enn í öðru sæti, hálfum vinningi á eftir Jóni.

 

Fide meistarinn, Einar Hjalti Jensson, er þriðji með 3 vinninga eftir baráttusigur á Sverri Erni Björnssyni.  Þrír keppendur koma næstir með 2 vinninga.  Í fimmtu umferð sem hefst kl. 19.30 á miðvikudag hefur Jón Viktor hvítt gegn Gylfa Þór Þórhallssyni, Sævar hefur hvítt gegn Mikaeli, og Einar Hjalti hefur svart gegn stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu.

 

Í B-flokki lauk öllum viðureignunum með jafntefli nema viðureign Gríms Björns Kristinssonar og Sveinbjörns Jónssonar þar sem sá síðarnefndi hafði betur með svörtu mönnunum.  Tvö af jafnteflunum voru mjög stuttar skákir og greinilegt að keppendur eru farnir að huga að framhaldinu og vilja spara orkuna.  Þegar einn keppandinn var spurður hvað þessi stuttu jafntefli ættu eiginlega að þýða svaraði hann því til að þetta snérist um að vinna „réttu“ andstæðinganna.  Hvort sú kenning haldi vatni kemur í ljós að loknum níu umferðum.

 

Eftir fjórðu umferð eru Dagur Ragnarsson, Nökkvi Sverrisson og Oliver Aron Jóhannesson efstir og jafnir í B-flokknum með 3,5 vinning en þess ber þó að geta að bæði Nökkvi og Oliver eru búnir að sitja hjá og er gert ráð fyrir vinningi í þeim tilfellum og miðað við það á Dagur inni vinning.  Eiríkur K. Björnsson kemur næstur með 3 vinninga og þá Sveinbjörn Jónsson með 2 vinninga en hann situr hjá í næstu umferð.  Í fimmtu umferð mætast m.a. Oliver og Dagur, Eiríkur og Jón Trausti Harðarson, og Nökkvi og Emil Sigurðarson.

 

Í opna flokknum hefur Ingvar Egill Vignisson tekið forystuna með 3,5 vinning eftir sigur á Felix Steinþórssyni.  Fjórir keppendur koma næstir með 3 vinninga; Gauti Páll Jónsson, Dawid Kolka, Sóley Lind Pálsdóttir og Hilmir Freyr Heimisson en öll náðu þau góðum úrslitum gegn stigahærri andstæðingum.  Í fimmtu umferð mætast m.a. Hilmir og Ingvar, Dawid og Gauti, og Sóley og John Ontiveros.

 

Það þarf vart að taka fram að öll úrslit ásamt frekari upplýsingum má nálgast í tenglunum hér að neðan.

  • Bein útsending
  • Úrslit, staða og pörun
  • Myndir
  • Upplýsingar
  • Skákir: 1. umf  2. umf  3. umf