Öruggur sigur hjá Vigni í dag



Vignir Vatnar Stefánsson vann öruggan sigur á rúmenskum skákmanni í dag þegar fimmta umferð fór fram í Heimsmeistaramóti áhugamanna í Iasi, Rúmeníu.  Sigur Vignis, sem hafði hvítt, var mjög öruggur þar sem okkar maður var kominn með gjörunnið tafl hróki yfir eftir 20 leiki.  Sá rúmenski barðist þó áfram en játaði sigraðan eftir 50 leiki.  Rétt er að benda á að sigur Vignis í fjórðu umferð var ekki síður glæsilegur en það tók hann aðeins 24 leiki að ganga frá andstæðingi sínum með svörtu.

 

Vignir Vatnar er nú kominn í efri hluta töflunnar í 30.-42. sæti með 3,5 vinning og haldi hann áfram á sömu braut á hann ágæta möguleika á að blanda sér í baráttu efstu manna og ljóst að hann fer vel yfir 1700 stig.  Sjötta umferð hefst á morgun kl. 12.30 og þá stýrir Vignir svörtu mönnunum gegn öðrum keppanda frá Rúmeníu en sá hefur sama stigafjölda og andstæðingur Vignis í dag, 1883 stig.  Það þarf vart að taka fram að Vignir hefur teflt upp fyrir sig í öllum umferðum.

 

Rúmeninn Lehel Vrencian er einn efstur með fullt hús vinninga en sex keppendur koma næstir með 4,5 vinning.

  • Skákir Vignis
  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins