Ólafur Thorsson með fullt hús á afar fjölmennu Þriðjudagsmóti



Ólafur Thorsson vann Þriðjudagsmótið 1. nóvember með fullu húsi. Skákirnar virtust vinnast nokkuð sannfærandi nema þá helst gegn Torfa Leóssyni, sem slysaðist til að falla á tíma peði yfir. En klukkan er ekki síður mikilvæg í atskák eins og í hraðskák, eins og sást vel á heimsmeistaramótinu í Fischer slembiskák.

37 keppendur mættu til leiks sem er meira en oft áður, en mest hafa mætt 43 eftir að mótin fóru aftur af stað. Fjöldinn var slíkur að á slaginu 19:30 var búið að tæma kaffikönnu númer eitt, þannig að það var farið beint í næstu!

Magnús Pálmi Örnólfsson fékk 4.5 vinning, leyfði aðeins jafntefli gegn Daða Ómarssyni, og þrír skákmenn fengu fjóra vinninga: Torfi Leósson, Björgvin Ívarsson Schram og Sindri Guðjónsson. Pétur Alex Guðjónsson hækkaði mest á stigum eða um 45, hann fékk þrjá vinninga. Verðlaun fyrir bestan árangur fékk hins vegar Jóhannes Ingi Árnason með þrjá vinninga, en hann er stigalaus en var með árangur upp á 1657 stig. Verðlaunin eru 3000 króna inneign í Skákbúðina.

Öll úrslit mótsins má nálgast á chess-results.

Þriðjudaginn 8. nóvember fellur niður Þriðjudagsmót vegna Atskákkeppni Taflfélaga sem fer fram á mánudegi og þriðjudegi.