Öðlingamótinu lokið



Algjör metþátttaka var í öðlingamótinu sem lauk miðvikudagskvöldið 12. maí.  40 keppendur tóku þátt í mótinu, sem virðist njóta aukinna vinsælda með hverju árinu, en þátttaka hafði mest náð rúmlega 20 keppendum.  Skýringuna á svo góðri þátttöku í skákmóti sem aðeins er ætlað afmörkuðum hópi, þ.e. þeim sem komnir eru á bestu ár ævinnar eða 40 ára og eldri, má án efa rekja til þess að mótið fer fram yfir mjög langan tíma og aðeins er teflt einu sinni í viku.  Í öðrum mótum er gjarnan teflt þrisvar í viku eða þau eru jafnvel keyrð í gegn á jafnmörgum dögum og fjöldi umferða segir til um.

 

Mótið í ár var nokkuð vel skipað með níu keppendur yfir 2000 stigum en stigahæstur var Fide meistarinn, Þorsteinn Þorsteinsson (2271).  TR-ingar áttu flesta keppendur í mótinu eða ellefu, og þá var aðdáunarvert hversu duglegir suðurnesjamenn voru að sækja mótið en sjö keppendur úr Skákfélagi Reykjanesbæjar voru á meðal keppenda, fimm keppendur komu úr KR, fjórir úr Skákfélagi Selfoss og nágrennis, þrír úr Taflfélagi Garðabæjar og tveir úr Helli.  Haukar, Taflfélag Vestmannaeyja, Skákfélag Vinjar og Víkingaklúbburinn átti síðan einn keppanda hvert félag.  Fjórir keppendur voru utan félaga þegar mót hófst.  Aðeins ein kona tók þátt í mótinu en það var formaður T.R., Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.  Það er vonandi að konurnar verði duglegri að sækja mótið á komandi árum.

 

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur vill sérstaklega þakka keppendum úr SR og SSON fyrir þátttökuna en flestir ef ekki allir af þeim leggja á sig töluverðan akstur til að mæta í Faxafenið.

 

Sigurvegari mótsins í ár var Bragi Halldórsson (2230) úr Helli og er þetta í fyrsta sinn sem hann er öðlingameistari en mótið hefur verið haldið frá 1992.  Bragi hlaut 6 vinninga úr 7 skákum og tapaði ekki skák.  Hann tekur því við keflinu af Birni Þosteinssyni (2226) sem hóf keppni sem TR-ingur en lauk keppni sem liðsmaður Goðans.  Í öðru sæti með 5,5 vinning varð Kristján Guðmundsson (2259) úr Taflfélagi Garðabæjar og þriðji með 5 vinninga varð varaformaður T.R., Eiríkur K. Björnsson (2013).  Fleiri skákmenn fengu 5 vinninga en Eiríkur varð efstur á stigum enda tapaði hann ekki skák, gerði fjögur jafntefli og vann þrjár.

 

Athygli vekur að í sjö efstu sætunum voru þrír skákmenn með undir 2000 skákstig og þar kemur Jón Úlfljótsson (1695) úr Víkingaklúbbnum skemmtilega á óvart með 5 vinninga og frammistöðu sem samsvarar 2096 skákstigum.  Vel gert hjá Jóni sem nýverið hóf taflmennsku aftur eftir margra ára hlé.  Þá átti stjórnarmaður T.R., Magnús Kristinsson (1415), líkast til eitt sitt besta mót en hann hlaut einnig 5 vinninga og samsvaraði árangur hans 1951 stigi.  Mesta allra hækkar þó hinn sókndjarfi TR-ingur, Halldór Pálsson (1947), eða um 25 stig en hann lauk leik með 5 vinninga.

 

 

Árangur TR-liðsmanna:

  • Eiríkur K. Björnsson (2013) – 3.-7. sæti með 5v, hækkar um 16 stig
  • Halldór Pálsson (1947) – 3.-7. sæti með 5v, hækkar um 25 stig
  • Magnús Kristinsson (1415) – 3.-7. sæti með 5v, er ekki með alþjóðleg stig en hækkar verulega á íslenskum stigum
  • Björn Þorsteinsson (2226) – (gekk í Goðann meðan á móti stóð) 8.-11. sæti með 4,5v, lækkar um 13 stig
  • Eggert Ísólfsson (1845) – 12.-17. sæti með 4v, er ekki með alþjóðleg stig en lækkar lítillega á íslenskum stigum
  • Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir (1810) – 18.-23. sæti með 3,5v, lækkar um 10 stig
  • Halldór Garðarsson (1978) – 24.-28. sæti með 3v, lækkar um 22 stig
  • Birgir Aðalsteinsson stigalaus – 29.-35. sæti með 2,5v
  • Ulrich Schmidhauser (1375) – 29.-35. sæti með 2,5v
  • Björgvin Kristbergsson (1165) – 38.-39. sæti með 1,5v
  • Pétur Jóhannesson (1020) – 38.-39. sæti með 1,5v

 

Lokastaða efstu manna:

1. Bragi Halldórsson (2230) 6v af 7

2. Kristján Guðmundsson (2259) 5,5v

3.-7. Eiríkur K. Björnsson (2013), Haukur Bergmann (2142), Halldór Pálsson (1947), Magnús Kristinsson (1415), Jón Úlfljótsson (1695) 5v

Heildarúrslit má sjá á Chess-Results.

  • Skákir öðlingamótsins

 

Myndir frá mótinu eru væntanlegar.

Skákstjóri var Ólafur S. Ásgrímsson, sem einnig á veg og vanda að öðlingamótunum, og um veitingar sá Birna Halldórsdóttir.