Öðlingamótið: Sigurbjörn og Þorvarður enn efstir – Berjast um titilinn



Verður Sigurbjörn  Öðlingameistari í fyrsta sinn?

Verður Sigurbjörn Öðlingameistari í fyrsta sinn?

Þegar ein umferð lifir af Skákmóti öðlinga eru Fide-meistarinn Sigurbjörn J. Björnsson (2278) og Þorvarður F. Ólafsson (2176) efstir og jafnir með 5,5 vinning en báðir lögðu þeir sinn andstæðing í sjöttu og næstsíðustu umferð sem fór fram í gærkveld. Sigurbjörn tefldi af öryggi með hvítu gegn stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu (2200), vann peð og mjakaði c-peði sínu rólega fram á sjöundu reitaröð og fórnaði síðan skiptamun til að tryggja stöðu þess. Með biskup og hrók ásamt c-peðinu gegn tveimur hrókum Lenku hafði Sigurbjörn að lokum sigur eftir að hafa bætt kóngi sínum við í pressuna enda vörnin mjög erfið fyrir svartan. Þorvarður lagði Stefán Arnalds (1999) með svörtu eftir slæman fingurbrjót þess síðarnefnda í miklu tímahraki en venju samkvæmt tefldi Stefán með innan við mínútu á klukkunni stóran hluta skákarinnar. Það er enginn vafi á því að með fínpússun á tímanotkun sinni mun Stefán hækka töluvert á Elo-stigunum góðu.

Kristinn Jens gengur á Guðs vegum.

Kristinn Jens gengur á Guðs vegum.

Ögmundur Kristinsson (2010) er einn í þriðja sæti með 4,5 vinning en hann fékk í gær frían vinning vegna forfalla andstæðings síns. Ögmundur getur þó ekki náð forystusauðunum að vinningum þar sem hann forfallast sjálfur í lokaumferðinni. Fjórir keppendur koma næstir með 4 vinninga, en þeir eru ásamt Lenku Haraldur Baldursson (1949), Jóhann H. Ragnarsson (1985) sem vann Pál Þórsson (1693) í snarpri viðureign og Kristinn J. Sigurþórsson (1744) sem hefur átt gott mót og knésetti síðast Jóhann H. Sigurðsson (1988).

Hart barist í skákum Öðlingamótsins.

Hart barist í skákum Öðlingamótsins.

Lokaumferðin fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst að venju kl. 19:30. Þá fær Kristinn það verkefni að halda Sigurbirni í skefjum á fyrsta borði á meðan að Þorvarður og Lenka eigast við á öðru borði. Á þriðja borði mætast síðan reynsluboltarnir, Jóhann H. Ragnarsson og Haraldur. Mótinu lýkur svo formlega með verðlaunaafhendingu að loknu Hraðskákmóti öðlinga sem verður haldið miðvikudaginn 9. maí.

Úrslit og stöðu ásamt skákum mótsins er að finna á Chess-Results.