Öðlingamótið: Lenka með fullt hús



Lenka Ptacnikova hefur fullt hús vinninga.

Lenka Ptacnikova hefur fullt hús vinninga.

Þegar þremur umferðum er lokið í Skákmóti öðlinga er stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2200), ein efst með fullt hús vinninga. Þriðja umferð fór fram í gærkveld þar sem Lenka lagði Hrafn Loftsson (2169) í baráttuskák. Fimm keppendur koma næstir með 2,5 vinning, þ.á.m. Fide-meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2278) og Þorvarður F. Ólafsson (2176) en þeir gerðu átakalítið jafntefli sín í milli í orrustu gærkveldsins. Á þriðja borði gerðu Sverrir Örn Björnsson (2135) og Kristján Örn Elíasson (1829) sömuleiðis jafntefli en á næsta borði lagði Ögmundur Kristinsson (2010) Halldór Garðarsson (1793) þar sem Halldór féll á tíma í stöðu þar sem hann hafði kóng og hrók gegn kóngi, hróki og biskupi Ögmundar.

Óskar Long er hér djúpt hugsi.

Óskar Long Einarsson er hér djúpt hugsi.

Búast má við að línur fari að skýrast í næstu umferðum en fjórða umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld þar sem mætast á efstu borðum Sigurbjörn og Ögmundur, Kristinn J. Sigurþórsson (1744) og Þorvarður, sem og Kristján Guðmundsson (2289) og Haraldur Baldursson (1949). Að venju má sjá öll úrslit, ásamt innslegnum skákum, á Chess-Results.