
Lenka Ptacnikova hefur fullt hús vinninga.
Þegar þremur umferðum er lokið í Skákmóti öðlinga er stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2200), ein efst með fullt hús vinninga. Þriðja umferð fór fram í gærkveld þar sem Lenka lagði Hrafn Loftsson (2169) í baráttuskák. Fimm keppendur koma næstir með 2,5 vinning, þ.á.m. Fide-meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2278) og Þorvarður F. Ólafsson (2176) en þeir gerðu átakalítið jafntefli sín í milli í orrustu gærkveldsins. Á þriðja borði gerðu Sverrir Örn Björnsson (2135) og Kristján Örn Elíasson (1829) sömuleiðis jafntefli en á næsta borði lagði Ögmundur Kristinsson (2010) Halldór Garðarsson (1793) þar sem Halldór féll á tíma í stöðu þar sem hann hafði kóng og hrók gegn kóngi, hróki og biskupi Ögmundar.

Óskar Long Einarsson er hér djúpt hugsi.
Búast má við að línur fari að skýrast í næstu umferðum en fjórða umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld þar sem mætast á efstu borðum Sigurbjörn og Ögmundur, Kristinn J. Sigurþórsson (1744) og Þorvarður, sem og Kristján Guðmundsson (2289) og Haraldur Baldursson (1949). Að venju má sjá öll úrslit, ásamt innslegnum skákum, á Chess-Results.