Öðlingamótið í fullum gangi



Árlega stendur T.R. fyrir skemmtilegu móti sem einungis er ætlað þeim sem náð hafa fjörutíu ára aldri.  Yngra fólki er ekki hleypt að í þessi mót og hafa slíkar tilraunir jafnvel komist nálægt því að valda uppnámi á meðal þeirra sem eldri eru og vilja halda fast í 40+ hefðina.  Fyrirkomulag mótisins er einkar hentugt, sjö umferðir og aðeins teflt einu sinni í viku.  Törnin verður þannig ekki eins stíf og í flestum öðrum mótum vetrarins.

Öðlingamótið virðist vera að sækja í sig veðrið því í fyrra var þátttökumetið slegið ærlega þegar 40 keppendur skráðu sig til leiks.  Í ár eru keppendur aftur 40 talsins og er mótið líkast til það sterkasta hin síðari ár þar sem 14 keppendur hafa meira en 2000 elo-stig.

Eins og jafnan eru margar “gamlar” kempur á meðal keppenda.  Má þar nefna Kristján Guðmundsson (2275), sem er stigahæstur keppenda, Gunnar K. Gunnarsson (2221), Björn Þorsteinsson (2213), Gylfa Þórhallsson (2200) og Braga Halldórsson (2194).

Bragi er núverandi öðlingameistari, tók við honum af Birni sem hefur unnið þrisvar.  Auk Braga og Björns eru fjórir fyrrverandi öðlingameistarar á meðal þátttakenda; Jóhann H. Ragnarsson (2089), Þorsteinn Þorsteinsson (2220), Halldór Garðarsson (1945) og fyrrnefndur Kristján.

Þegar tveim umferðum af sjö er lokið eru sjö skákmenn með fullt hús vinninga; Kristján, Björn, Bragi, Jóhann, Þorsteinn ásamt þeim Jóni Þorvaldssyni (2045) og Halldóri Pálssyni (1966).

Teflt er á miðvikudagskvöldum og hejast umferðirnar kl. 19.30.  Skákstjórn er í höndum Ólafs S. Ásgrímssonar.

Þriðja umferð fer fram nk miðvikudagskvöld.  Pörun og úrslit má nálgast á Chess-Results (pörun þriðju umferðar verður ljós þegar frestaðar skákir annarar umferðar hafa verið tefldar).

  • Dagskrá mótsins