Ný íslensk skákbók fyrir byrjendur



Formaður Taflfélags Reykjavíkur, Björn Jónsson, hefur látið mikið að sér kveða á síðustu misserum.  Meðal verka hans eru vönduð íslensk kennsluhefti fyrir byrjendur í skák sem notuð hafa verið við skákkennslu í félaginu að undanförnu og notið mikilla vinsælda.  Björn hefur nú sett hluta heftanna undir einn hatt í nýrri og glæsilegri bók, Lærðu að tefla, sem gefin er út af Sögur útgáfu.  Stefnt er á frekari útgáfu efnis úr skákheftunum góðu.

Í bókinni kennir ýmissa grasa en í fyrsta kafla hennar er farið yfir uppbyggingu skákborðsins, virði taflmannanna og manngang þeirra.  Þá er farið yfir hugtökin skák og mát sem og skákritun en lokakaflinn fjallar um helstu byrjanagildrur sem hverjum skákmanni er nauðsynlegt að þekkja.

Það er óhætt að mæla með Lærðu að tefla fyrir alla sem áhuga hafa á að kynna sér leyndardóma skáklistarinnar en inngang bókarinnar ritaði stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson þar sem segir m.a.:

 

Mikil gróska og áhugi er meðal yngstu kynslóðarinnar fyrir skák nú um mundir.  Það er því mikið ánægjuefni að sjá þessa vönduðu kennslubók fyrir byrjendur í skáklistinni koma út…Framsetningin er einföld og hnitmiðuð en um leið lifandi.  Fjölmörg æfingadæmi fylgja efni hvers kafla og eru þau vel valin og lærdómsrík…

 

Bókin hefur fengið góðar viðtökur og umsagnir.  M.a. segir Stefán Bergsson framkvæmdastjóri Skákakademíu Reykjavíkur um bókina:

Hin nýútkomna bók Lærðu að tefla eftir Björn Jónsson formann Taflfélags Reykjavíkur er að mínu mati besta námsefnið sem gefið hefur verið út síðustu árin og jafnvel áratugina. Bókin er afar skýr, hún er skemmtileg og gott jafnvægi er milli lestexta og æfinga.

Fyrir alla krakka sem langar að læra að tefla er bókin í senn skemmtilegur og lærdómsríkur kostagripur. Hún er einnig kjörið tæki fyrir alla þá sem langar að kenna börnum og unglingum að tefla. Spennandi verður að sjá áframhald á skrifum Björns og fleiri kennslubækur frá honum.

 

Nánari upplýsingar um hina nýju bók má finna hér.