Nokkrir keppendur á Skeljungsmótinu – Skákþingi Reykjavikur



Þetta árið settust 57 keppendur að tafli í Skeljungsmótinu – Skákþingi Reykjavíkur, allt frá ungum og efnilegum skákmönnum til manna á gamals aldri. Hart er barist og tekist á, en til þess er leikurinn gerður.

Meðal keppenda er Bjarni Magnússon, en það eru meira en hálf öld síðan hann tók fyrst þátt í Skákþingi Reykjavíkur og heftur vísast teflt oftar í þessu móti en nokkur annar þeirra, sem nú taka þátt. Líklegast er Björn Þorsteinsson sá eini, sem kemst nærri honum í fjölda móta, en Björn tekur ekki þátt að þessu sinni, án þess að vísindaleg athugun hafi verið gerð á þátttöku manna. Einnig má vera, að Sævar Bjarnason hafi teflt álíka oft, en hann hefur verið afar þaulsækinn á skákmót síðustu áratugina.

Þröstur Þórhallsson stórmeistari hefur oftast allra unnið titilinn Skákmeistari Reykjavikur, eða sjö sinnum samtals, síðast árið 2000, en fyrst árið 1987, þá aðeins 18 ára gamall. Ingi Randver Jóhannsson, alþjóðlegur meistari, kemur næstur með sex sigra á árunum 1954-1961, en aðeins Friðrik Ólafsson og Benóný Benediktsson náðu að rjúfa einokun hans á þessum tíma.

Nokkrir skákmenn hafa orðið skákmeistarar Reykjavíkur fjórum sinnum, þeir Eggert Gilfer, Baldur Möller, Jón Kristinsson, Björn Þorsteinsson, Jón Viktor Gunnarsson, alþjóðlegur meistari, og einn af þátttakendum í Skeljungsmótinu 2008.

Sævar Bjarnason, alþjóðlegur meistari, hefur verið Skákmeistari Reykjavíkur fjórum sinnum, fyrst árið 1982, síðan 1984, 1989 og síðast 1994.

Á mótinu 1982 háði Sævar æsilega baráttu við Margeir Pétursson um titilinn og hafði að lokum betur. Í þriðja sæti varð ungur og óþekktur skákmaður, Róbert Harðarson (Lagerman). Sævar fylgdi þá á eftir með góðum árangri á Alþjóðalega Reykjavíkurskákmótinu og náði þar sínum öðrum áfanga að “FIDE-meistaratitli”, eins og þá var háttur á, og var aðeins hálfum vinningi frá því að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.

Á Reykjavíkurmótinu 1984 stakk Sævar af þegar í upphafi móts og átti enginn raunhæfan möguleika á að ná honum. En þetta var allt hið kyndugasta, því áður en Skákþinginu lauk, hófst “Búnaðarbankaskákmótið” og tefldi hann því, eins og segir í kynningu þess, í tveimur kappskákmótum samtímis. Og í fyrstu umferð rúllaði hann upp engum öðrum en sjálfum Efim Geller, en lék skákinni slysalega niður í tímahraki, ef ritari þessara lína man rétt.

Á mótinu 1989 var hart barist og ýmsir skákmenn reyndu að þvælast fyrir Sævari, sem þó sigraði að lokum eftir harða baráttu. Þeirra á meðal var vefstjóri þessarar síður og sextán ára piltur, Sigurður Daði Sigfússon (unglingsmynd til vinstri), sem þá var að koma fram á sjónarsviðið. Sævar og Sigurður tóku síðan báðir þátt í Fjarkamótinu margfræga, sem hófst að Skákþinginu loknu.

Sigurður Daði náði síðan að verða Skákmeistari Reykjavíkur 1992, þá á tvítugasta aldursári. Háði hann harða baráttu við Sævar og Hauk Angantýsson, tvo alþjóðlega meistara, um titilinn. Fyrir síðustu umferð voru þeir þrír jafnir. Haukur tapaði fyrir Guðmundi Gíslasyni, Ísfirðingnum knáa, sem löngu síðar átti eftir að sigra á Skákþingi Reykjavíkur með fádæma yfirburðum. Sævar vann Björgvin Víglundsson örugglega, en Sigurður Daði vaknaði upp með afar erfiða stöðu gegn Hafnfirðingum grjótharða Heimi Ásgeirssyni, sem þá var ungur og efnilegur skákmaður, en stigalár og hafði staðið sig afburða vel í mótinu. Allt stefndi í, að Sævar myndi sigra enn eitt skiptið, þegar Sigurður skellti skyndilega mannsfórn á Heimi, sem þorði ekki að þiggja hana, eins og skásti kosturinn var, og í kjölfarið hrundi staða hans. 

Sigurður og Sævar urðu því jafnir og efstir með 9 vinninga af 11 mögulegum og þurftu að heyja einvígi um titilinn. Þar sigraði Sigurður Daði. Guðmundur Gíslason varð þriðji með 8,5 vinninga, en Haukur Angantýsson og Hannes Hlífar Stefánsson komu næstir með átta. Meðal þátttakenda þá voru nokkrir, sem nú taka þátt, en auk þeirra Sævars og Sigurðar voru af núverandi þátttakendum m.a. Halldór G. Einarsson, Sverrir Örn Björnsson, Haraldur Baldursson, Ingvar Þ. Jóhannesson, Kristján Eðvarðsson og Sigurbjörn J. Björnsson, skákmeistari Reykjavíkur 2007. Skákstjóri þá var, eins og oft áður og jafnan síðan, Ólafur S. Ásgrímsson.

Sævar Bjarnason sigraði síðan örugglega á Skákþingi Reykjavíkur 1994 og fékk 9 vinninga af 11 mögulegum og komst taplaus frá mótinu. Hann varð heilum vinningi yfir Áskel Örn Kárason, Ólaf B. Þórsson og Jóhannes Ágústsson, sem fengu átta vinninga.

Á Skeljungsmótinu – Skákþingi Reykjavíkur 2008 eru margir sterkir skákmenn mættir til leiks, auk þeirra Sævars, Sigurðar Daða og Sigurbjarnar, sem hefur titil að verja, þeirra á meðal Henrik Danielsen stórmeistari, Ingvar Þór Jóhannesson, Halldór Grétar Einarsson, Guðmundur Kjartansson, Davíð Kjartansson og síðan skákmeistari T.R., Hrafn Loftsson, svo aðeins nokkrir séu nefndir. Ljóst er, að baráttan verður hörð, þó Henrik sé vitaskuld sigurstranglegastur á pappírnum. Hann er hins vegar hvorki búsettur í Reykjavík né félagi í reykvísku taflfélagi, svo titillinn getur mjög auðveldlega fallið til einhvers hinna, sem á eftir stórmeistaranum koma.

En pappír er bara pappír. Hann sker ekki úr um sigurinn, frekar en áður. Þegar upp er staðið verður það sá, sem flesta vinninga fær, sem uppi stendur sem sigurvegari, eins og reglan hefur verið hingað til.