NM ungmenna: Sigur og jafntefli hjá Vigni í 1. og 2. umferð



Hinn ungi og efnilegi TR-ingur, Vignir Vatnar Stefánsson, heldur ótrauður áfram baráttu sinni á reitunum 64.  Vignir, sem átti tíu ára afmæli í gær fimmtudag, er meðal þátttakenda á Norðurlandamótinu í skólaskák sem fer fram á Bifröst.  Þetta er í þriðja sinn sem Vignir tekur þátt í Norðurlandamótinu en hann var aðeins átta ára gamall þegar mótið fór fram í Osló fyrir tveimur árum.  Það var hans fyrsta mót á erlendri grundu og hafnaði hann í 6. sæti en í fyrra varð hann í 2. sæti þegar mótið var haldið í Espoo, Finnlandi.

 

Teflt er í fimm flokkum sem skiptast eftir aldri þátttakendanna og á hver norðurlandaþjóð tvo fulltrúa í hverjum flokki.  Í einum flokkanna fá Íslendingar þó þrjá fulltrúa þar sem Finnar sendu aðeins einn keppanda til leiks.  Vignir Vatnar keppir í E-flokki keppenda 11 ára og yngri og er stighæstur með 1652 Elo stig en næstur honum með 1632 stig er Daninn Filip Boe Olsen.  Þar sem þeir tveir eru langstigahæstir má gera ráð fyrir að baráttan standi á milli þeirra tveggja.

 

Eðli málsins samkvæmt telur flokkurinn tólf keppendur og eru tefldar sex umferðir en um kappskákir er að ræða.  Í fyrstu umferð, sem fór fram fyrr í dag, sigraði Vignir Danann Mads H. Hasager með svörtu mönnunum.  Sigurinn var öruggur og svaraði Vignir máttleysislegum sóknaraðgerðum Danans með framrás á miðborðinu og eftir að línur opnuðust fékk Daninn ekki við neitt ráðið og gafst að lokum upp með gjörtapað tafl eftir 42 leiki.

 

Önnur umferð fór síðan fram nú seinnipartinn og þá mætti Vignir samlöndu sinni og nýkrýndri Íslandsmeistara stúlkna, Nansý Davíðsdóttur, en Vignir er núverandi Íslandsmeistari barna.  Niðurstaðan var hálfgert „stórmeistarajafntefli“ en þau sömdu jafntefli eftir 18 leiki í fremur rólegri skák þar sem Vignir stýrði hvítu mönnunum.

 

Þegar þetta er ritað er tveimur skákum enn ólokið og pörun þriðju umerðar því ekki ljós en þriðja umferðin hefst í fyrramálið kl. 10.  Mjög líklega verður hægt að fylgjast með skák Vignir í beinni útsendingu.

  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins (beinar útsendingar)