Hér birtist minningargrein TR um Ríkharð Sveinsson sem birt var í Morgunblaðinu 3. janúar 2024.
Fallinn er frá Ríkharður Sveinsson, formaður Taflfélags Reykjavíkur, eftir skammvinn veikindi.
Þegar fólk hugsar til Taflfélags Reykjavíkur, og starfsemi félagsins undanfarna áratugi, kemur nafn Ríkharðs Sveinssonar fljótt upp í hugann. Rikki byrjaði ungur að árum að sækja æfingar félagsins og hélt alltaf tryggð við félagið.
Ríkharður gekk fyrst í stjórn TR árið 1986, þá tæplega tvítugur, og var viðloðandi starfsemi félagsins allar götur síðar, hvort sem það var innan stjórnar eða utan. Var hann formaður félagsins á árunum 1997-2001 og aftur frá árinu 2019 og þar til hann lést. Í seinni formannstíð sinni var Ríkharður ávalt liðsstjóri A-sveitar félagsins og fórst honum það einkar vel af hendi. Taflfélagið varð Íslandsmeistari skákfélaga í fyrsta sinn í 14 ár, árið 2022, undir styrkri liðsstjórn Ríkharðs. Þetta var í fyrsta sinn sem keppt var í sérstakri úrvalsdeild og Ríkharði mikið kappsmál að félagið næði góðum árangri.
Ríkharður tók að sér ýmis störf fyrir skákhreyfinguna, en hann var alþjóðlegur skákdómari. Hinn seinni ár var hann afar virkur í því starfi hjá Taflfélagi Reykjavíkur. Ríkharður tók einnig að sér dómgæslu á mótum á vegum Skáksambands Íslands. Má þar til dæmis nefna Reykjavíkurskákmótið og landsliðsflokk Íslandsmótsins í skák. Stærstu skákstjórnarverkefni hans voru Stórveldaslagurinn 1990, Heimsbikarmót Flugleiða 1991, Heimsmótið í skák 2000 í Salnum í Kópavogi, Reykjavík Rapid skákmótið á Nasa árið 2004, Evrópumót landsliða í Reykjavík 2015 og Ólympíuskákmótið í Bakú árið 2016. Ekki má gleyma að Ríkharður var einnig þónokkrum sinnum fararstjóri íslenskra skáksveita á Norðurlandamótum í skólaskák.
Félög væru ekki til án fólksins sem hlúir að þeim og heldur þeim gangandi. Það var ekki óalgeng sjón í skákmótum á vegum TR að Ólafur Ásgrímsson og Ríkharður Sveinsson tækju á móti skákmönnum í salnum á meðan Birna Halldórsdóttir sá um kaffiveitingarnar. Nú hefur verið höggvið stórt skarð í þann hóp fólks sem lagt hefur sitt á vogaskálarnar fyrir félagið áratugum saman. Það er erfitt að ímynda sér Taflfélag Reykjavíkur án Ríkharðs. Hann var ekki bara kjarni í starfsemi félagsins heldur einnig framúrskarandi liðsfélagi, kær vinur og einstaklega skemmtilegur samstarfsfélagi, glettinn og drífandi.
Ríkharður var einstaklega farsæll í formannsstörfum sínum fyrir TR. Hann var jafnan ákveðinn og röggsamur, réðst í þau verk sem þurfti á hverjum tíma. En á sama tíma var hann einstakt ljúfmenni, ávallt tilbúinn að hlusta á hugmyndir okkar hinna í stjórninni og vinna að málum á jákvæðan hátt.
Taflfélag Reykjavíkur vill þakka Ríkharði Sveinssyni fyrir ómetanlegt sjálfboðaliðastarf undanfarin ár. Hvort sem það voru afreksmennirnir, barna og unglingastarfið, eða mótahald fyrir hinn almenna skákmann, allt saman skipti þetta jafnmiklu máli að mati Rikka, og lykilþáttur í því alhliða starfi sem TR býður upp á.
Fjölskyldu Ríkharðs og öðrum aðstandendum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur,
Taflfélag Reykjavíkur