Lokamót Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur hafið!



Fjórða og lokamótið í hinni glæsilegu Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur hófst í dag er fyrsta umferðin af fimm var tefld.  Keppendur í mótinu nú eru færri en í hinum mótunum þremur og skýringanna eflaust að leyta til þess að um “langa helgi” er að ræða auk þess sem nokkrir af “fastagestum” mótsins taka nú þátt í landsmótinu í skólaskák sem fram fer á sama tíma á Selfossi.

bikarsyrpa_4_r1-17

Stigahæstur keppenda er Mikhailo Kravchuk (1482) úr TR sem vann einmitt fyrsta mót Bikarsyrpunnar.  Næstir honum koma Guðmundur Agnar Bragason (1368), Arnór Ólafsson (1349) og Birkir Ísak Jóhannsson (1290) allir úr TR.

bikarsyrpa_4_r1-16

Mörg óvænt úrslit litu dagsins ljós í þessari fyrstu umferð.  Atli Mar Baldursson (1038) gerði gott jafntefli með svörtu í skák sinni við Mikhailo á fyrsta borði.  Notaði tímann vel, varðist af hörku í erfiðri stöðu og uppskar eftir því.

bikarsyrpa_4_r1-14

Þá sigraði Alexander Már Bjarnþórsson (1000) Guðmund Agnar sannfærandi og Dagur Kristján Jónsson bar sigurorð af hinum sterka liðsfélaga sínum Arnóri Ólafssyni eftir að sá síðarnefndi lék illa af sér í vænlegri stöðu.

bikarsyrpa_4_r1-1

Hjörtur Kristjánsson sem er stigalaus en kann greinilega sitthvað fyrir sér sigraði Gabríel Sæ Bjarnþórsson (1083) sem fórnaði manni fyrir sókn sem síðan bar ekki árangur.

bikarsyrpa_4_r1-6

Önnur úrslit voru að mestu eftir bókinni góðu en sérstaka athygli vakti þó vaskleg framganga Elsu Krístínar Arnaldardóttur sem er fædd 2007 og lét Nikulás Ými Valgeirsson hafa vel fyrir hlutunum.  Var staðan lengi vel í jafnvægi þótt hún þyrfti að lokum að játa sig sigraða.

bikarsyrpa_4_r1-13

Eins og í fyrri mótum Bikarsyrpunnar koma langflestir keppenda úr Taflfélagi Reykjavíkur eða alls þrettán af átján.

Til mikils er að vinna í Bikarsyrpunni, en auk glæsilegra verðlaunagripa fyrir þetta mót fær sá keppandi sem bestum árangri samanlagt glæsilegan farandbikar.  Þá fá þeir þrír keppendur sem bestum árangri ná samanlagt í syrpunni að gjöf tíma í einkakennslu í skák hjá þremur af öflugustu alþjóða meisturum félagsins, þeim Birni Þorfinnssyni, Jóni Viktori Gunnarssyni og sjálfum Íslandsmeistaranum Guðmundi Kjartanssyni. Sigurvegarinn fær þannig fimm tíma, annað sætið gefur þrjá tíma og þriðja sætið tvo tíma.

Önnur umferð í lokamóti Bikarsyrpunnar hefst í fyrramálið kl. 10.30 og eru allir velkomnir í skákhöllina að fylgjast með.

Fylgjast má með stöðu, úrslitum og pörun hér