Litháísk kennslustund í 3. umferð



Það er óhætt að segja að við höfum verið teknir í kennslustund í 3. umferð hér í Varna.  Í dag mættum við einbeittum Litháum og úrslitin urðu 3-1 þeim í hag.  Um tíma stefndi nú í að það færi 3,5-0,5 eða 4-0, þannig að einmitt þessa stundina geta menn horft á björtu hliðarnar.

 

3. umferð u-16 ára flokkur:

 

Búlgaría – Hvíta-Rússland 2-2

 

Litháen – Ísland 3-1

 

Domantas Klimciauskas – Daði Ómarsson 1-0

Julius Garnelis – Vilhjálmur Pálmason 1-0

Brigite Laurusaite – Matthías Pétursson 0-1

Vytautas Simanaitis – Aron Ellert Þorsteinsson 1-0

 

Staðan:

1. Litháen 7,5

2. Búlgaría 6,5

3. Hvíta-Rússland 5,5

4. Ísland 4,5

 

Daði tapaði í dag.  Hann fékk þó ágæta stöðu, en höfuðverkir og vanlíðan setja mark á hann þessa stundina.  Þegar svo er finna menn ekki alltaf réttu leikina.

 

Villi tapaði líka og var líka með ágæta stöðu úr byrjuninni.  Nokkrir ónákvæmir leikir þýddu hinsvegar að staðan varð erfið.  Staðan varð síðan afar flókin, en Litháinn tefldi agað og innbyrti vinninginn.

 

Matti vann í skák sem skipti um eigendur.  Fyrst var Matti búinn að pakka henni saman eftir byrjunina, en missti af vinning.  Síðan fór skákin smám saman að snúast í hina áttina og loks var Laurusaite komin með vænlega stöðu, ef ekki unna.  Upp kom drottningaendatafl sem virtist vera að stefna í þráskák þegar stelpan lék sig í mát.

 

Loks tapaði Aron eftir að hafa jafnað taflið í byrjuninni.  Hann tefldi miðtaflið ágætlega, en gerði mistök í endataflinu.  Síðan minnkaði tíminn hjá honum og það kann að hafa eitthvað að segja um að hann tapaði að lokum.

 

Að mörgu leyti má því segja að þema ferðarinnar hafi haldið áfram í dag.  Okkar menn fá ýmist góðar stöður út úr byrjuninni, en þá vantar einhvern skákkúltur sem mér finnst mér sjá á austantjaldsmönnunum.  Þessi kúltúr, sem ég vil nefna svo, þýðir að þau hafa gjarnan einhvern meiri skilning á mörgum miðtöflum og endatöflum.  Þau virðast líka hafa taktísk þemu meira á hreinu.

 

Skilningur þeirra er að sönnu nokkuð vélrænn – okkar menn eru oft hugmyndaríkari – en þegar upp er staðið, á þessu styrkleikastigi, er þeirra aðferð vænlegri til árangurs.

 

Maður spyr sig hvers vegna þetta er.  Einhver hluti skýringarinnar er að hér eru mun fleiri þjálfarar sem þjálfa taktík, miðtöfl og endatöfl kerfisbundið.  En ég er sannfærður um að ekki allir þessir krakkar eiga þess kost á slíkri þjálfun.  Það þýðir væntanlega tvennt:  Að þeir sem fá slíka þjálfun kunna vel að meta það og að hinir krakkarnir fá skólun úr því að tefla við þessa krakka sem hafa notið slíkrar þjálfunar.

 

Annars hlutum við samúð hinna keppendanna í dag, því lengi vel stefndi jafnvel í 4-0.  Eftir viðureignina var ég að spjalla við Litháíska þjálfarann (hann er mjög merkilegur maður, stendur allan tímann og fylgist með skákunum án þess að sýna minnstu svipbrigði – missti reyndar andlitið örsnöggt í dag þegar 3. borðsmaðurinn lék sig í mát).  Þá vatt sér að okkur Hvít-Rússneski þjálfarinn og sagði eitthvað á óðamála rússnesku.  Litháinn túlkaði fyrir mig.  Hvít-Rússinn sagði: “four-zero would not have been nice!”  E.t.v. átti hann líka við að það hefði ekki verið gott fyrir Hvít-Rússana að missa Litháana einum vinningi til viðbótar upp fyrir sig.

 

Torfi Leósson