Hinar margrómuðu laugardagsæfingar Taflfélags Reykjavíkur hefjast á ný eftir sumarfrí laugardaginn 30. ágúst.
Í vetur hefur göngu sína nýr flokkur, byrjendaflokkur, sem er fyrir yngstu iðkendurna sem eru að stíga sín fyrstu skref á reitunum 64. Sá flokkur byrjar æfingar laugardaginn 13. september. Allir hressir skákkrakkar eru hvattir til að mæta á laugardagsæfinguna 30. ágúst kl.14, líka þeir sem munu sækja byrjendaæfingarnar enda munum við þá kynna starfið í vetur og hafa gaman!
Þjálfun og kennsla á laugardagsæfingunum er í höndum þaulreyndra og sterkra skákmanna og er aðgangur ókeypis. Æfingarnar henta byrjendum jafnt sem lengra komnum og er börnum velkomið að mæta og fylgjast með til að byrja með ef þau eru ekki tilbúin að taka beinan þátt strax.
Æfingarnar fara fram í húsnæði félagsins að Faxafeni 12 á laugardögum yfir vetrartímann.
Dagskrá veturinn 2014-2015:
11.00-12.15 Byrjendaflokkur (hefst 13. september).
12.30-13.45 Skákæfing stúlkna/kvenna (hefst 30. ágúst).
14.00-15.15 Skákæfing fyrir börn fædd 2002 og síðar (opnar æfingar, hefst 30. ágúst).
15.15-16.00 Félagsæfing fyrir börn fædd 2002 og síðar (hefst 30. ágúst).
Umsjón með æfingunum er í höndum Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur, Torfa Leóssonar, Kjartans Maack og Björns Jónssonar. Umsjón með æfingum afrekshóps hafa Torfi Leósson og Daði Ómarsson.