Á annan tug grunnskóla með 33 sveitir tók þátt í gríðarlega fjölmennu Reykjavíkurmóti grunnskólasveita sem fór fram í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur í gær mánudag. Ætla má að á milli 150-200 börn og fullorðnir hafi verið samankomin í salarkynnum TR þar sem mótahald fór afskaplega vel fram og létu viðstaddir óvirkt loftræstikerfi ekki koma í veg fyrir að gleðin væri við völd.
Venju samkvæmt voru krakkar á öllum aldri og af öllum getustigum á meðal þátttakenda og börðust þau öll af miklum drengskap á borðunum köflóttu. Ánægjulegt var að sjá þátttöku sjö stúlknasveita sem allar stóðu sig með miklum sóma og er það von mótshaldara að gróska sé í skákástundun stúlkna.
Fyrirfram mátti búast við að baráttan um sigur myndi standa á milli Laugalækjarskóla, Ölduselsskóla og Rimaskóla sem allir hafa á að skipa öflugum skákmönnum. Svo fór að Laugalækjarskóli sigldi sigrinum nokkuð örugglega í höfn og eftir góða sigra á fyrrnefndum skólum í fjórðu og fimmtu umferð var í raun ljóst hvar gullið myndi hafna.
Að loknum umferðunum sjö höfðu liðsmenn Laugalækjarskóla halað inn 25 vinningum af 28 mögulegum, fjórum vinningum meira en kapparnir úr Ölduselsskóla sem komu næstir með 21 vinning. A-sveit Rimaskóla fékk 20 vinninga í þriðja sæti, hálfum vinningi meira en C-sveit sama skóla. Það er til marks um öflugt skáklíf í Rimaskóla að sveitir skólans skipuðu sæti 3-6, þeirra á meðal A-sveit stúlkna sem hafnaði í 5. sæti með 17 vinninga og eru þær stöllur því Reykjavíkurmeistari stúlknasveita. Meistarar síðasta árs, stúlknasveita Melaskóla, var önnur með 15,5 vinninga og þriðju með 14 vinninga var stúlknasveit Foldaskóla.
Taflfélag Reykjavíkur þakkar Skóla-og frístundasviði Reykjavíkurborgar fyrir stuðning og samstarf við mótahald.