Krakkarnir í TR á fullu í skólaskákinni



Nýverið fóru fram Skólaskákmót Reykjavíkur sem og Landsmótið í skólaskák og að venju létu liðsmenn Taflfélags Reykjavíkur ekki sitt eftir liggja.  Skólamótin eru mikilvæg fyrir börnin og skákmenn sem komnir eru á fullorðins ár eiga gjarnan góðar minningar frá þeim.

 

Skólaskákmót Reykjavíkur var haldið í Laugalækjarskóla 29. apríl og var mótahald í höndum Skáksambands Íslands ásamt Skákakademíunni.  Það er til marks um hið öfluga barna- og unglingastarf hjá Taflfélagi Reykjavíkur að í yngri flokki sigraði Mykhaylo Kravchuk og Þorsteinn Magnússon varð annar.  Þá varð Gauti Páll Jónsson annar í eldri flokki, Donika Kolica þriðja og Leifur Þorsteinsson fjórði.  Sannarlega glæsileg frammistaða og vart þarf að taka fram að öll eru þau í afrekshópi TR.

 

  • Skólaskákmót Reykjavíkur – yngri flokkur
  • Skólaskákmót Reykjavíkur – eldri flokkur

 

Sex TR krakkar voru síðan meðal þátttakenda í Landsmótinu í skólaskák sem fór fram á Patreksfirði um síðastliðna helgi en það ver Skáksamband Íslands sem sá um mótahald.  Þrír TR-ingar tefldu í yngri flokki þar sem hinn ungi og efnilegi Bárður Örn Birkisson varð annar, Mykhaylo fimmti og Þorsteinn sjötti af tólf keppendum.  Í eldri flokki varð Gauti Páll fjórði, Leifur sjötti og Donika sjöunda af keppendunum tólf.

 

  • Landsmótið í skólaskák – yngri flokkur
  • Landsmótið í skólaskák – eldri flokkur

 

Hér var aðeins stiklað á stóru og farið yfir þátttöku barnanna í nýliðnum mótum en flest þeirra eru að auki komin með ágæta reynslu í kappskákmótum sem og hraðskákmótum og þá eiga þau mikið hrós skilið fyrir öfluga ástundun á Laugardagsæfingunum.  Haldi þau áfram á sömu braut er ljóst að nöfn þeirra eiga eftir að sjást reglulega í skákmótum framtíðarinnar og að staða þeirra í töflunni færist ofar og ofar.

 

Taflfélag Reykjavíkur er sannarlega stolt af því að eiga svo glæsilega fulltrúa og hlakkar til að vinna áfram með þeim á næstkomandi starfsári.