KORNAX mótið: Hjörvar á kunnuglegum slóðum



Þegar fjórum umferðum er lokið á KORNAX mótinum er staðan á toppnum orðin hefðbundin; Hjörvar Steinn Grétarsson (2460) er einn í efsta sæti með fullt hús vinninga.  Fimm skákmenn koma næstir með 3,5 vinning; Sigurbjörn Björnsson (2335), Hrafn Loftsson (2209), Björn Þorfinnsson (2430), Sverrir Þorgeirsson (2330) og Ingvar Þór Jóhannesson (2350).

 

Hjörvar sigraði Júlíus L. Friðjónsson (2195) örugglega í þriðju umferð eftir röð ónákvæmra leikja þessa síðarnefnda snemma tafls.  Í fjórðu umferð mátti Hjörvar þó hafa sig allan við þegar hann sigraði Snorra G. Bergsson (2323) í spennandi skák.  Sikileyjarvörn var tefld og var staðan lengi vel í járnum þó nokkuð hafi hallað á Snorra þegar á leið.  Snorri bætti hinsvegar stöðu sína og var kominn með betra talf þegar hann lék illa af sér manni í miklu tímahraki.  Mikilvægur sigur Hjörvars var því höfn en svekkjandi tap Snorra, sem að eigin sögn, hefur nú þrisvar sinnum beðið ósigur fyrir „barninu“ eftir að hafa teygt sig of langt í sigurinn þegar staðan býður upp á jafntefli.  Skákin er harður skóli.

 

Snorri hefur hinsvegar átt ágætt mót og virðist ætla að fylgja eftir góðum árangri á skákmóti í Serbíu fyrir skömmu síðan.  Í þriðju umferð mætti hann Sverri Erni Björnssyni (2181) og fékk snemma yfirburðastöðu í skák sem lauk fljótt eftir djarfan en jafnframt slæman afleik Sverris.

 

Björn, annar af alþjóðlegu meisturum mótsins, vann Gylfa Þórhallsson (2191) í þriðju umferð en gerði jafntefli við Sigurbjörn í þeirri fjórðu.  Sú skák var óvenju róleg miðað við sóknarstíl beggja.  Líkast til er nú sá tímapunktur í mótinu þar sem keppendur vilja taka sem minnsta áhættu til að halda sér örugglega við toppinn og losa síðan adrenalín birgðirnar þegar nær dregur síðustu umferðunum.

 

Ingvar vann Þorvarð F. Ólafsson (2200) í þriðju umferð í mikilli baráttuskák þar sem Ingvar nýtti sér til fulls einu peði meira í endatafli.  Ingvar og Hrafn gerðu síðan jafntefli í fjórðu umferð.

 

Sigurbjörn vann Kjartan Maack (2168) í þriðju umferð eftir mikla baráttu í tímahraki þar sem Sigurbjörn missti m.a. af glæsilegum vinningsleik.  Sigurbjörn gerði svo jafntefli við Björn í fjórðu umferð eins og fyrr segir.

 

Fimmta umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30 en þá mætast m.a. Hörvar-Björn, Ingvar-Sverrir og Sigurbjörn-Hrafn.

  • KORNAX mótið