80. Skákþing Reykjavíkur hófst í gær þegar Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, formaður T.R., setti mótið og Eva Einarsdóttir, formaður ÍTR, lék fyrsta leiknum í skák Hjörvars Steins Grétarssonar og Atla Jóhanns Leóssonar í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12.
KORNAX er stærsti styrktaraðili mótsins annað árið í röð og á stóran þátt í að gera mótið eins veglegt og raun ber vitni. Skákþing Reykjavíkur fer nú fram í áttugasta sinn og hefur verið haldið allt frá árinu 1932 án þess að missa eitt einasta ár úr.
Fyrsti Skákmeistari Reykjavíkur var Ásmundur Ásgeirsson en Ingi R. Jóhannsson er sá eini sem hefur unnið titilinn þrjú ár í röð og Þröstur Árnason er yngstur allra til að bera titilinn.
Hjörvar Steinn er sigurvegari síðustu tveggja ára og getur því orðið annar skákmaðurinn í sögunni til að vinna titilinn þrjú ár í röð.
Mótið er mjög vel skipað 70 keppendum og fara þarf tólf ár aftur í tímann til að finna fjölmennara Skákþing en 73 keppendur tóku þátt árið 1999. Stigahæstur er landsliðsmaðurinn, Hjörvar Steinn Grétarsson (2460) en næstur honum kemur alþjóðlegi meistarinn og landsliðsmaðurinn, Björn Þorfinnsson (2430). Alls eru 23 keppendur með 2000 Elo-stig eða meira sem er ýfið meiri fjöldi en undanfarin ár. Meðalstig tíu stigahæstu keppendanna eru 2334 stig sem er það hæsta um árabil.
Einn stórmeistari er meðal þátttakenda, tveir alþjóðlegir meistarar og fjórir Fide meistarar. Þá eru fjórtán skákkonur á meðal keppenda eða 20% sem er óvenju hátt hlutfall og vonandi til marks um aukinn þátt kvenna við skákborðin. Mikil breidd er á meðal keppenda, hvort sem er í skákstigum eða aldri, því sá yngsti er aðeins átta ára en sá elsti kominn langt á sjötugsaldurinn.
Skákþingið í ár er glæsilegt. Fyrstu verðlaun eru 120.000 kr en heildarverðlaunafé nemur 240.000 kr. Auk verðlauna fyrir þrjú efstu sætin eru aukaverðlaun fyrir bestan árangur skákmanna undir 2000 stigum, 1800 stigum, 1600 stigum og bestan árangur stigalausra. Það hafa því allir eitthvað að keppa að. Þá eru skákir á fimm efstu borðunum í hverri umferð í beinni útsendingu á vefnum og allar skákir eru aðgengilegar fljótlega eftir að hverri umferð lýkur.
Skákstjórn annast Ólafur S. Ásgrímsson og Ríkharður Sveinsson, Paul Frigge slær inn skákirnar og hefur umsjón með beinum útsendingum. Þórir Benediktsson sér um pistlaskrif í kringum mótið og Birna Halldórsdóttir fer fyrir hinu margrómaða Birnu-kaffi og sér til þess að aldrei er skortur á ljúffengu bakkelsi. Það skal tekið fram að í sunnudagsumferðunum eru veitingarnar sérlega glæsilegar.
Halldór Grétar Einarsson og Páll Sigurðsson fá þakkir fyrir gjafmildi og myndugleik við aðstoð mótahalds og það ekki í fyrsta sinn.
Þá að fyrstu umferð. Að venju var mikill stigamunur á milli keppenda og fór svo að öllum skákum utan einnar lauk með sigri þess stigahærri. Stigahæstu keppendurnir unnu sínar viðureignir nokkuð örugglega en skák hins unga og efnilega, Páls Snædals Andrasonar (1720), og hins sterka Bolvíkings, Guðmundar Gíslasonar (2360), skar sig nokkuð úr á efstu borðum.
Guðmundur, sem hafði svart, beitti Kan afbrigði Sikileyjarvarnar gegn Páli. Guðmundur missteig sig síðan illa snemma í byrjuninni eða hefur ætlað sér að fara of geyst fram og Páll nýtti sér mistökin til hins ýtrasta og lauk skákinni með uppgjöf Guðmundar eftir aðeins 15 leiki. Sannarlega óvænt úrslit þar á ferð en fróðlegt verður að fylgjast með Páli í mótinu en hann hefur verið á mikilli uppleið eftir nokkra lægð um tíma.
Ekki verður tíundað nánar um úrslit fyrstu umferðar en þau eru öll aðgengileg á heimasíðu mótsins ásamt stöðu, pörun, skákunum og ýmsu öðru.
- KORNAX mótið